146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

stytting biðlista.

[15:07]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Um fyrri hluta fyrirspurnarinnar, um biðlistana, er því til að svara að ég held að við hv. þingmaður séum að mörgu leyti sammála. Fyrst og fremst er unnið á biðlistum með fjármagni og þegar við erum að tala um biðlista erum við auðvitað aðallega að tala um bið eftir aðgerðum sem eru, eins og það heitir, valkvæðar aðgerðir, þ.e. aðgerðir sem eru ekki bráðaaðgerðir heldur aðgerðir sem fólk bíður eftir, á borð við liðskiptaaðgerðir, augnaðgerðir o.s.frv. Þetta eru aðgerðir sem í flæði eða rekstri spítalanna mæta stundum afgangi ef mikill þrýstingur er á almenna þjónustu, neyðarþjónustu o.s.frv.

Vinnan við að stytta biðlista hófst fyrir rúmu ári fyrir atbeina Alþingis, þar sem Alþingi stóð fyrir því að setja viðbótarfjármagn, 840 millj. kr. á ári þrjú ár í röð, sérstaklega til að vinna á biðlistum. Við erum nú á öðru ári í því átaki og ég get svarað því til að það gengur ágætlega að vinna á þeim biðlistum, en nákvæma tölu eða stöðu á því hef ég því miður ekki hér á takteinum til að svara fyrir það í dag.

Stór hluti af því að vinna á biðlistunum er auðvitað stuðningur eða styrkur þeirra stofnana sem vinna í verkinu. Í ár horfum við sérstaklega á Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og sjúkrahúsið á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Við horfum einnig á möguleika á að nýta aðstöðu og jafnvel mannskap á öðrum heilbrigðisstofnunum með stuðningi Landspítalans ef þarf.

Ég verð að koma betur inn á fyrirspurnina í seinna svari.