146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipan dómara í Landsrétt.

[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Fyrirspurn mín í dag til hæstv. dómsmálaráðherra snýr að skipan dómara í hið nýja dómstig Landsrétt. Þann 12. maí sl. birtist í Kjarnanum listi yfir þá einstaklinga sem taldir voru hæfastir af nefnd um hæfni umsækjenda um embætti dómara, en þar er að finna fimm konur og tíu karla.

Nú vakna ég upp við vondan draum því að það virðist vera að rætast sem við höfðum áhyggjur af þegar þessi mál voru til meðferðar í umræðu um lög sem áttu að gera hæfnisnefnd kleift að meta hæfni umsækjenda um stöðu í Landsrétti út frá jafnréttislögum. Þessi vondi draumur varð til þess að við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar lögðum fram breytingartillögu þess efnis að hæfnisnefndin skyldi hafa jafnréttislögin til hliðsjónar við mat á umsóknum. Því var alfarið hafnað af meiri hlutanum, enda taldi hann næsta víst að þetta yrði haft í huga við skipanina.

Ég hef talsverðar áhyggjur af því að einungis þriðjungur dómara í nýju dómstigi sé konur, í ljósi yfirlýsinga hæstv. dómsmálaráðherra sem sagði í 1. umr. um lög um dómstóla sem urðu til þess að dómnefndin gat tekið þetta fyrir, með leyfi forseta:

„Ég er ekki talsmaður þess að menn bindi það í lög að velja eigi einstakling eftir kyni fremur en hæfni. Ég hef fulla trú á því að konur jafnt sem karlar uppfylli öll þau hæfisskilyrði sem eðlilegt er að leggja til grundvallar við skipan dómara.“

Því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hvernig hyggst hún bregðast við þessari stöðu, að hæfnisnefnd hefur metið það sem svo að einungis fimm konur, og þar á móti tíu karlar, skuli gegna stöðu dómara á hinu nýja dómstigi? Hvernig hyggst hæstv. ráðherra bregðast við þessari stöðu?