146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipan dómara í Landsrétt.

[15:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég get auðvitað ekki borið ábyrgð á einhverjum fréttaflutningi eða umfjöllun einstakra fjölmiðla um mál. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þingmanns, að ráðuneytið sendi athugasemdir við framsetningu á þessari umfjöllun. Nú veit ég ekki hvort þessi miðill kaus að breyta þeirri framsetningu eða halda fast í hana en birta þá bara athugasemdir ráðuneytisins. Það er ekkert um það að ræða að ráðuneytið sé að fjalla sérstaklega um einhverja lista sem ekki eru orðnir til. Eins og ég lýsti áðan er þetta mál til umsagnar hjá öllum umsækjendum og ég tel best fara á því að menn fái nú kannski frið og svigrúm til að veita slíkar umsagnir ef einhverjar eru og nefndin þá í kjölfarið til að fjalla um þessar umsagnir og taka málefnalega afstöðu. Nefndin mun síðan komast að niðurstöðu um hæfni, hverjir eru mögulega hæfastir eða hverjir eru jafnhæfir og þar fram eftir götunum. Það kann að vera að aðrir hafi aðrar skoðanir (Forseti hringir.) á þeirri niðurstöðu, en ég tel rétt að nefndin fái að ljúka störfum áður en málið kemur síðan endanlega til þingsins.