146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup vogunarsjóðs á hlut í Arion banka.

[15:27]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið en það er hreinlega ekki fullnægjandi. Hann virðist jafnvel vera búinn að gleyma því, þrátt fyrir að hann hafi rifjað það upp með þingheimi, að hann gaf í raun og veru heilbrigðisvottorð á þessi kaup strax daginn eftir. Það er það sem ég er ofboðslega ósátt við að ekki lágu fyrir nægilegar upplýsingar, en þrátt fyrir það var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Íslands tilbúinn að segja að það væri jákvætt að vogunarsjóðir væru að veðja á Ísland, en hann hafði ekki þessar upplýsingar.

Að mínu mati er það óábyrgt og glannalegt og mig langar að spyrja hann í framhaldi af því hvort hann sjái hreinlega ekki eftir þessum ummælum. Í raun og veru má segja að það sé ákveðin blekking þegar fjármála- og efnahagsráðherra ríkis er tilbúinn til að koma fram og gefa strax heilbrigðisvottorð á kaup eins og þessi þrátt fyrir að hafa ekki nægilegar upplýsingar.

Ég spyr hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Var þetta ekki óábyrgt? Var þetta ekki glannalegt?