146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

frumvarp um tóbaksvarnir og rafrettur.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Nei, hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér, ráðherra sá sér ekki fært að koma á ráðstefnuna sem hann vissi af. Ég geri ráð fyrir að ég muni fá frekari fréttir af því sem þar fór fram. Stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum um tóbaksvarnir þegar kemur að notkun rafsígarettna, rafrettna, eða hvað við viljum kalla þessa nýju tækni, byggir ekki síst á ályktunum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á lögum og umræðu í löndunum í kringum okkur sem við miðum okkur gjarnan og helst við.

Hér er verið að árétta nýja tækni til inntöku á nikótíni, sem er ekki skaðlaust lyf eitt og sér heldur hefur það þekktar neikvæðar afleiðingar gagnvart hjartasjúkdómum og fleiru. Hér er fjallað um umhverfi þessarar notkunar og inntöku á nikótíni sem hingað til hefur ekki verið haldið utan um í íslenskum lögum. Með þessu lagafrumvarpi er í raun í fyrsta skipti verið að heimila formlega notkun á nikótínvökva í rafrettum. Ég tel það mikilvægt fyrir þá sem vilja nýta sér þessa aðferð til þess að hætta að reykja. En í frumvarpinu eru takmarkanir á umhverfi rafrettna til að tryggja öryggi neytenda, tryggja merkingar, tryggja að réttur styrkleiki sé á vörunni, hún sé skráð hjá Neytendastofu og til þess að takmarka aðgengi barna og unglinga að tækni sem getur auðveldað og aukið fíkn í nikótín, sem eitt og sér er ekki jákvætt.