146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

frumvarp um tóbaksvarnir og rafrettur.

[15:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ef ráðherrann hefði getað mætt á þessa ráðstefnu hefði hann getað hlustað á það að nú þegar hafa komið fram rannsóknir og engin þeirra styður við það sem ráðherrann hélt fram hér áðan að mögulegt sé að ef einhver notar nikótín í gufuformi leiði það til þess að hann verði nikótínfíkill. Þeir sem þegar eru nikótínfíklar í gegnum reykingar með tóbaki eru þeir sem halda áfram að vera fíklar.

Nú þegar hafa Nýja-Sjáland og Kanada hafist handa við að endurskoða þessa löggjöf. Við vorum næstum því búin að innleiða mjög slæm lög er varða gagnageymd sem okkur tókst að fresta af því að þar var það mikið vafaatriði að verið væri að tryggja mannréttindi. Mannréttindadómstóll Evrópu felldi dóm um að þau lög væru of yfirgripsmikil.

Ég spyr ráðherra: Er ekki tilefni til að bíða eftir frekari rannsóknum og eiga samráð við færustu sérfræðinga á þessu sviði í stað þess að taka einhliða við upplýsingum frá einum aðila?