146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Hér er til umræðu salan á landi ríkisins við Vífilsstaði. Ríkið á land og aðrar eignir víða um land. 40. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um að ríkið megi ekki láta af hendi fasteign í afnotarétt nema samkvæmt lagaheimild sem yfirleitt er sett fram í fjárlögum hvers árs. Um Vífilsstaðalandið, rúmlega 200 hektara, er frá árinu 2003 heimild af hálfu Alþingis til að selja jörðina. Raunverulega var meginpartur landsins, 812 hektarar, sem er fjórum sinnum meira en það sem nú er selt, seldur árið 1997 á verði sem svarar til 350 millj. kr. á núverandi verðlagi, þ.e. um 60% grunnverði í sölunni nú. Í þeim samningi, sem undirritaður var af Friðrik Sophussyni fjármálaráðherra og Ingibjörgu Pálmadóttur, heilbrigðisráðherra og flokkssystur fyrirspyrjanda, voru engin ábataskipti. Aftur á móti mun sá samningur sem hér er til umræðu væntanlega gefa ríkinu nokkra milljarða í ábata þegar nýtt skipulag hefur verið samþykkt til viðbótar við þær 560 millj. kr. sem miðað er við sem grunnverð.

Garðabær hefur um árabil óskað eftir að fá að kaupa það sem eftir stóð af landinu til uppbyggingar á vegum sveitarfélagsins. Fundir áttu sér stað, m.a. árið 2012, en aðilar hittust árið 2016 og var ákveðið að tilnefna tvo matsmenn, einn frá hvorum aðila. Þeir skiluðu mati 23. nóvember sl. og var mat þeirra lagt til grundvallar samningsverðinu. Í matinu kemur fram að hluti af landinu er friðaður, hluti er undir golfvelli og enn aðrir hlutar hugsaðir undir kirkjugarð og vegstæði.

Það er því mjög misjafnt verð lagt til grundvallar einstökum hlutum svæðisins. Almennt hefur verið gengið til viðræðna við sveitarfélög um land innan þeirra marka þegar svo stendur á að málefnalegar ástæður séu fyrir hendi til slíkrar sölu og verð landsins sé ákveðið á hlutlægan hátt eins og hér var gert. Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum. Ríkisstjórnin vill auka lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu og á nú í samtali við bæði Kópavog og Reykjavík um hugsanlega sölu á landi ríkisins í því skyni. Framboðsskortur á húsnæði er helsta skýringin á háu og hækkandi húsnæðisverði á höfuðborgarsvæðinu.

Lykilatriði er að hlutlægir mælikvarðar séu notaðir við að ákvarða verðið. Grunnverðið, 560 millj. kr., var ákveðið út frá núverandi skipulagi en ábataskiptasamningur kveður á um hvernig tekjur af breyttu skipulagi skiptust milli ríkisins og Garðabæjar. Þar fær ríkið 60% af sölu lóðanna en Garðabær 40%. Tilkynning um samkomulag birtist á vef ráðuneytisins 6. apríl 2017 og skrifað var undir samninga hálfum mánuði seinna.

Hv. þingmaður setur söluna í samhengi við uppbyggingu nýs Landspítala. Þannig er að Alþingi ákvað að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut og hefur núverandi ríkisstjórn sett fram tímasetta áætlun um að ljúka byggingu árið 2023. Mér er kunnugt um að flokkur hv. þingmanns hefur haft margvíslegar aðrar skoðanir á málinu og viljað drepa ákvörðun um það á dreif. Engin formleg greining liggur fyrir um hagkvæmni Vífilsstaðalandsins sem framtíðarstaðar fyrir sjúkrahús. Lykilatriði er að staðarval framtíðarspítala hlýtur að vera óháð því hver á landið.

Enginn fyrirvari um hugsanlegar byggingar nýs Landspítala er í samningnum. Bæjarstjórinn í Garðabæ hefur aftur á móti lýst því yfir að hann hafi ekkert á móti því að samið verði um slíka byggingu. Sjálfur tel ég mikilvægast að ljúka við byggingu nýs spítala við Hringbraut og ég er viss um að þar verður framtíðarstaður Landspítala.

Til viðbótar við heimild til sölu í fjárlögum eins og áður er nefnt er sérstaklega kveðið á um sölu á jörðum ríkisins í 35. gr. jarðalaga. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að selja ríkisjarðir eða hluta þeirra þeim sveitarfélögum sem jarðirnar eru í og einnig stofnunum og fyrirtækjum þeirra.“

Enginn vafi leikur því á um lögmæti sölunnar.

Virðulegi forseti. Salan á Vífilsstaðalandi var fagleg og þjónar hagsmunum ríkis, Garðabæjar og almennings alls. Ríkið fær sanngjarnt verð fyrir landið miðað við núverandi skipulag. Verði því skipulagi breytt, eins og áform eru um, fær ríkið ágóðahlut af þeirra sölu. Með bættu framboði byggingarlóða er líklegt að það styttist í að framboð og eftirspurn á nýju húsnæði standist á, en það er einmitt mikilvægt hagsmunaatriði fyrir ungt fólk og aðra íbúðarkaupendur.