146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er mjög margt gagnrýnivert við þessa gjörð ráðherrans. Það lá á. Hvað lá á? Af hverju mátti Alþingi ekki koma að þessu máli? Ég ætla að byrja á að ræða skammsýnina sem í þessu felst. Seint á árinu 2014 var lóð Landspítalans á Vífilsstöðum einhliða og án umræðu tekin til fjármálaráðuneytis. Því var mótmælt harðlega af hálfu Landspítalands, enda nánast eina landsvæðið í miðju höfuðborgarsvæðisins sem tekið gæti við næstu sjúkrahússbyggingu. Það er jú svo að þó að nú verði byggt upp við Hringbraut, sem er mjög nauðsynlegt, þarf eftir 20–30 ár að huga að nýjum stað fyrir nýtt sjúkrahús.

Þrátt fyrir þá stöðu er landið nú afhent Garðabæ til skipulags og byggingar án nokkurs fyrirvara í kaupsamningi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað heilbrigðisráðherrann hafði um þetta að segja. Hann er ekki hér til svara. En er hæstv. heilbrigðisráðherra sáttur við að landi Vífilsstaða, sem er þungamiðjan til framtíðar fyrir heilbrigðisþjónustu í landinu, sé ráðstafað á þennan hátt? Var hann með í ráðum? Var málið rætt í ríkisstjórn? Það er nauðsynlegt að fá svör við þessum spurningum, frú forseti.

Hvað jafnræði varðar vil ég taka undir það sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér um söluverðið og þann gríðarlega afslátt sem reiknaður er. Hæstv. ráðherra hefur sagt að hann sé að vinna með bæjarfélögunum til að auka framboð á húsnæði og halda íbúðaverði niðri. Hann hefur sagt í svari sem hér var vitnað til að það þurfi að gæta þess að sala slíkra eigna til sveitarfélaganna raski ekki jafnræði milli þeirra með því að slíkar lóðir séu seldar ákveðnum sveitarfélögum á undirverði.

Því spyr ég: Býðst Reykjavíkurborg að kaupa land Keldna, land Keldnaholts og land Úlfarsfells á sömu kjörum? Ef (Forseti hringir.) þetta er fagleg sala hlýtur svarið að vera já. Ef ekki, fullyrði ég að þessi gjörð er ekki til þess fallin að auka traust á stjórnvöldum í þessu landi.