146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:50]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er með mikilli ánægju að ég tek þátt í þessari umræðu um sölu Vífilsstaða, bæði sem þegn Íslands og Garðabæjar. Það eru til ýmsar aðferðir við að selja og ákvarða verð. Ein er uppboð, að selja á einhverju svokölluðu hæsta verði, önnur er að leggja á hlutlægan mælikvarða með samningum. Í þessu tilfelli gerðist það að aðilar að samningum tilnefna hvor sinn aðila til þess að framkvæma hlutlægt mat á andlaginu, hinu selda Vífilsstaðalandi, sem er nú ekki alveg einsleitt land. Það er yfir snjólínu, jafnvel byggingarlínu, og eins og hæstv. ráðherra rakti er það að hluta til friðað, að hluta bundið undir golfvöll og síðast en ekki síst er gert ráð fyrir stofnanasvæði þarna. Þar kann hugsanlega að verða reistur spítali ef svo semst um á þessu stofnanasvæði. En það vill til að ríkið hefur gert samninga af svipuðu tagi við annað sveitarfélag, Reykjavík, eftir því sem ég kemst næst, um ábataskipti á byggingarlandi. Það er í raun forgangsatriði að sveitarfélög geti haft forræði á því landi sem þau byggja á. Ég tel að það sé margt til fyrirmyndar um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þessum gerningi. Ég ætla kannski að koma að því í seinni ræðu minni hvað ég tel þar til fyrirmyndar. Ég hef lokið máli mínu að sinni.