146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðuneytið kom á fund fjárlaganefndar um daginn og svaraði spurningum nefndarmanna um söluna á landi Vífilsstaða. Þar kom ýmislegt áhugavert fram. En setjum málið í smásamhengi. Þarna er um að ræða land í almannaeigu innan Garðabæjar, allir á Íslandi eiga hlut í þessu landi. Þegar landið er selt er því mikilvægt að athuga hvort vel hafi verið farið með almannaeign og almannafé.

Til þess að segja þetta á sem skýrastan hátt: Þegar lóðir verða seldar, þegar byggt verður á þeim, eða hvernig sem ákveðið verður að nýta landið, er ekkert tryggt að gróðinn af sölunni lendi ekki í vösum braskara eða annarra milliliða. Annað eins hefur gerst hér á Íslandi og því er ærið tilefni til að spyrja hvort svindl geti gerst.

Fyrirkomulagið er þannig að ríkið fær 560 millj. kr. á átta árum með einhverjum skrýtnum vöxtum, það væri áhugavert að fá nánari greiningu á því hjá hæstv. fjármálaráðherra, og síðan 60% af söluandvirði lóðanna þegar Garðabær selur þær næst, innan næstu 40 ára.

Þegar ég skoða þetta mál þá leita ég að holum. Hvernig verður hægt að haga málum þannig að hlutur ríkisins verði fjarri markaðsvirði? Mun Garðabær geta selt lóðirnar á kostnaðarverði með tilliti til kostnaðar við gatna- og holræsagerð með það að markmiði að útvega húsnæði á lægra verði? Það gæti verið ágætismál. En ef svo, hafa þá eigendur lóðanna ekkert um málið að segja? Er tryggt að þeir sem taka við lóðunum og selja þær síðan áfram haldi þessu lægra verði sem lóðirnar áttu að leiða til? Nei. Fyrirkomulagið eins og það er núna er að Garðabær kemur til með að sjá um sölu lóðanna. Það er kannski eðlilegt af því að Garðabær hefur skipulagsvaldið á þessu svæði, en almenningur hefur hins vegar enn hag af þróun mála og því er mjög mikilvægt að fylgjast með því hvernig staðið verður að málum í þessum samningi í framtíðinni.

Það er ýmislegt athugunarvert við þetta mál, sem ég kem síðan að í seinni ræðu.