146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:54]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að fagna þessari sölu. Mér finnst það brýnt og sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að fara yfir það heildstætt hér á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í ljósi vaxtarmarka í svæðisskipulagi, og finna mögulega og ómögulega skallabletti í skipulagi og skipuleggja þar íbúðir. Ég lít svo á að það sé sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga að bæta húsnæðismarkaðinn.

Mér sýnist aðferðafræðin vera númer eitt varðandi söluna sem hér er til umræðu og búið er að fara yfir, hvort þetta hafi verið lögmætt; númer tvö um mögulega lóð undir Landspítalann, sem ekki er búið að útiloka; og síðan númer þrjú er söluverð og hvort keypt hafi verið á undirverði.

Mig langar að fara stuttlega yfir það því að ég hef sýnt því áhuga hvað þetta byggingarland er sem er til sölu. Mér skilst að þetta séu um 40–50 hektarar af landi. Í blandaðri byggð gætu þetta verið einar 900 íbúðir, þ.e. sérbýli og fjölbýli. Það er eins og eitt gott Lindahverfi í Kópavogi eða eitt skólahverfi. Einn skóli kostar um 3,5 milljarða. Fyrir utan alla innviði og uppbyggingu sem Garðabær þarf núna að leggja í, finnst mér að taka þurfi að taka inn í verðmat á þessari jörð. En ég ætla að koma betur að því síðar.