146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[15:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég held að við séum öll hér í þingsal sammála um mikilvægi þess að taka á húsnæðisvandanum. Ég er sammála ráðherranum um að einn af lykilþáttum í húsnæðisvandanum sem við erum að fást við er lóðaskortur. Sú stefna sem hefur verið á öllu höfuðborgarsvæðinu að þétta byggð hefur leitt til þess að framboð á lóðum á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið nægilegt. Frá hruni 2008 hefðum við þurft að byggja 1.400 íbúðir á ári en höfum hins vegar verið að byggja undir 700 íbúðum. Þar hefur Garðabær að vísu staðið sig þokkalega og verið sá sem hefur mest verið að byggja og Reykjavík aftur á móti minnst.

Ég held hins vegar að mikilvægt sé að hafa í huga að markaðsverð er ekki bara eitthvað sem við búum til heldur hlýtur það að endurspegla það framboð sem er á viðkomandi vöru. Ef við aukum framboð á lóðum hljótum við að hafa áhrif um leið á verðið til lækkunar. Ég hvet ráðherrann eindregið, ef hann hefur í hyggju, líkt og kemur fram í svari hans við fyrirspurn minni um ráðstafanir ríkislóða á höfuðborgarsvæðinu, að semja um sölu á fleiri lóðum við sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, að reyna að gera það með þeim hætti að framboð muni aukast, að það verði fleiri sem hafi möguleika á því að eignast húsnæði, að það verði horft til þess að einstaklingar, ekki bara fyrirtæki, ekki bara stórir verktakar, hafi möguleika á því að byggja sjálfir og að það sé líka horft til þess að styðja við uppbyggingu á félagslegu húsnæði í gegnum almenna íbúðakerfið. Þetta er allt sem við þurfum að vinna saman að og ég hvet ráðherrann eindregið til þess að fara nú að skila einhverjum tillögum varðandi húsnæðismálin því að það er svo sannarlega beðið eftir þeim.