146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

salan á Vífilsstaðalandi.

[16:06]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á umræðu í þessu máli er ég hættur að skilja hvað snýr upp og hvað niður. Hér liggur fyrir samningur og hann er sagður ógagnsær þegar hann liggur fyrir. Það er hægt að lesa nákvæmlega hvað í honum stendur. Þarna er verð ákveðið auk þess (Gripið fram í.) sem hér eru ábataskipti, ef hægt er að kalla það ábataskipti þegar byggingarlóðir eru seldar, þannig að hér er nákvæmlega staðið að sölu á þessu landi á opinn og gagnsæjan hátt.

Ég vona og treysti að þetta verði íbúum á Suðvesturlandinu og jafnvel landinu öllu til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið, að þarna verði byggðar 1.500 íbúðir, jafnvel fleiri, á þessu ágæta svæði með útivist og nánd við náttúru. Það er efast um lögmæti. Þetta er fyllilega í samræmi við það sem hefur gerst í sölu ríkiseigna svo árum og áratugum skiptir með heimildarákvæði í fjárlögum. Þetta heimildarákvæði hefur verið endurnýjað í fjárlögum og það er gert ráð fyrir stofnanasvæði eins og ég tók fram áðan. Ég tel að þessi samningur gæti um margt verið fordæmi og fyrirmynd að öðrum samningum og dettur mér þá í hug að ríkið á tvö hús í Hafnarfirði, St. Jósefsspítala sem ég tel nauðsynlegt að ríkið selji Hafnarfjarðarbæ við fyrsta tækifæri (Gripið fram í.) og á góðum kjörum vegna þess að þarna er um að ræða byggingu sem er úrelt til þess brúks sem henni var ætlað. (Gripið fram í: Ríkasta sveitarfélagið.) Ríkasta sveitarfélag, það skiptir ekki máli í þessu sambandi, (Forseti hringir.) það skiptir máli að hér erum við að koma eign í almannanot.