146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í raun engum sæmandi að tala með þeim hætti sem hæstv. fjármálaráðherra gerði áðan. Það er vel hægt að fara málefnalega í þessa umræðu. Við getum haft á henni skiptar skoðanir eins og kom augljóslega fram og ráðherrann var auðvitað gagnrýndur mjög harkalega. En það að vaða í fólk með þeim hætti sem hér var gert geta tæpast talist ný vinnubrögð, eða hvað? Eru þetta vinnubrögðin sem Viðreisn ætlar að boða ásamt Bjartri framtíð? Ég ætla ekki að nefna Sjálfstæðisflokkinn, hann hefur ekki boðað sérstaklega nein ný vinnubrögð.

Ég held að ráðherrann ætti að koma í pontu og biðjast afsökunar á þessu, ég held hann hafi hlaupið á sig. Ég trúi því ekki að þetta sé það sem hann meinar, þau orð sem hann lét falla. Það er auðvitað engum til sóma, hvorki honum né öðrum að gera slíkt, að vaða svona í fólk eins og hér var gert. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það.