146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

orð ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:26]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vissulega fóru orð aðeins á flug hérna og var kannski nokkrum ofaukið. En ég sakna líka svara ráðherra. Hér voru nokkrar spurningar bornar upp af þingmönnum í umræðunni sem ekki var svarað í lok umræðunnar. Á sama tíma og nokkrum orðum var ofaukið þá vantar nokkur.

Ég spurði til dæmis um vaxtakjörin sem Garðabær fær í þessum samningi. Ég spurði um tilvísun í lög, að geta gefið sveitarfélögum kaupsamninga á betri kjörum en öðrum, og um tekjur af leigu lóða. Það voru ýmsar aðrar spurningar sem aðrir þingmenn báru upp. Mér þætti vænt um að fá svör við þeim og eins afsökunarbeiðni vegna þeirra orða sem ofaukið var.