146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:50]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um þyrlur, varðskip og flugvélar. Það er mjög ánægjulegt að sjá að endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar er komin á dagskrá. Í því samhengi er mikilvægt að tryggja einnig rekstrarfé. Í umsögn Landhelgisgæslunnar kemur fram að Landhelgisgæslan þurfi að hafa yfir að ráða sjö þyrluáhöfnum. Það er ekki nóg að kaupa þyrlur, það þarf að vera hægt að manna þær líka. Einnig þarf að bæta við mannskap á varðskipin og vera með þrjú skip klár. Nú er ástandið þannig, skilst mér, að ekki er hægt að halda úti viðunandi landhelgisgæslu með varðskipum alla daga ársins.

Tryggja þarf fjármagn til að halda úti rekstri flugvélar Landhelgisgæslunnar TF-SIF svo ekki þurfi að leigja hana í verkefni erlendis stóran hluta ársins. Við verðum að tryggja lágmarkslöggæslu og björgunargetu á hafi úti hringinn í kringum landið alla daga ársins. Skip, þyrlur og flugvélar Landhelgisgæslunnar verða að vera í lagi og standast kröfur samtímans og vera vel mönnuð.

Til að stytta viðbragðstíma tel ég gríðarlega mikilvægt að setja upp starfsstöð fyrir þyrlu á Austurlandi. Íslenski flotinn er oft að stórum hluta staddur austur af landinu og við vitum að þegar neyðarástand verður úti á sjó getur hver mínúta skipt máli ef stór hluti flotans er t.d. staddur fyrir austan land á loðnuvertíð. Það er auðvitað galið að hafa björgunartækin öll á sama blettinum.