146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:51]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni umræðuna um Landhelgisgæsluna okkar, strandgæsluna. Hvernig má það vera að Gæslan okkar sé það fjársvelt að við höfum ekki einu sinni fólk til að manna þau tæki sem við eigum nú þegar?

Árið 2009 tók Landhelgisgæslan í notkun Dash-8 leitar- og eftirlitsflugvél. Sú flugvél hefur reyndar voðalega lítið sést í íslenskri landhelgi vegna þess að fjársvelti hefur orðið til þess að útleiga á henni til landamæravörslu í Miðjarðarhafi hefur haft úrslitaáhrif um hvort til séu fjármunir til að fjármagna aðra þætti Gæslunnar. Það kom mjög skýrt og greinilega í ljós í máli forstjóra Landhelgisgæslunnar að ef við hefðum ekki fengið áframhaldandi leigusamning við Frontex hefði þurft að grípa til uppsagna.

Landhelgisgæslan þjónar mjög viðamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Það var Landhelgisgæslan sem kom fyrstu mönnum í land þegar snjóflóð skall á Flateyri. Það er Landhelgisgæslan sem sér um björgun úr fjöllum og af vegum landsins. Það er Landhelgisgæslan sem er undir sérstaklega miklu álagi vegna ferðamanna við að bjarga fjallgöngufólki, snara upp sjúklingum af slysstað þegar það er brýnasta nauðsyn. Þótt ástandið sé með þessum hætti hafa fjárlög ekki tekið mið af því.

Árið 2009 var áhöfnum á þyrlunum okkar fækkað og það var ekki útséð hvernig hægt yrði að starfrækja tvær þyrlur nema rétt rúman helming ársins. Það mætti kannski segja að Landhelgisgæslan hafi verið útsjónarsöm við fjáröflun og hagræðingu. Olíukaup Gæslunnar fara fram í Færeyjum vegna þess að þar er hægt að kaupa billegri birgðir og fjölga með því mögulegum úthaldsdögum.

Ég spyr: Af hverju erum við að tala um nýjar þyrlur án þess að hafa einu sinni fólk til að setja í þær?

Framhald í næstu ræðu.