146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[16:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga atriði og eins svörum hæstv. ráðherra. Nú er það svo að Landhelgisgæslan nýtur gríðarlega mikils trausts meðal almennings á Íslandi, er ein af þeim stofnunum sem getur hrósað sér af því að við lítum alltaf til hennar. Sem betur fer er það nú þannig að Landhelgisgæslan stendur yfirleitt alltaf undir því og getur bjargað okkur þegar eitthvað bjátar á.

Það er auðvitað þannig líka, og við verðum að viðurkenna það, að á undanförnum árum höfum við lagt allt of lítið fé til Landhelgisgæslunnar og hún hefur þar af leiðandi ekki getað sinnt til að mynda eftirliti með landhelginni allri. Við horfum líka á það varðandi þyrlurnar okkar að þær eru komnar til ára sinna og það er dýrt að leigja. Þess vegna var það mjög góð ákvörðun í tíð síðustu ríkisstjórnar að ákveða að fara í kaup á þremur nýjum þyrlum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja eftir því hvort hægt sé að flýta þessu. Ég tek undir það með bæði ráðherra og þingmönnum að auðvitað er hugsanlegt að við getum nýtt hagfellt gengi nú um stundir. Það er líka mikilvægt að horfa á sameiginlegt útboð með öðrum löndum. Við getum þá orðið hluti af stærri heild, þá gæti tímaþátturinn, hvenær væri best að taka þátt, að flýta því eða vera á þessum tíma, farið eftir því hvort við gætum orðið hluti af stærri pakka með öðrum Norðurlöndum til að mynda.

Það er býsna langt að bíða til 2021, 2023 eftir að fá þyrlurnar afhentar. Því væri líka spurning hvort hægt sé að fara einhverja millileið á meðan við erum að klára það verkefni. Ég ætla aðeins að víkja að því í seinni ræðu.