146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að það er býsna langur tími að bíða hér til 2021–2023 eftir að við bætum þjónustustig Landhelgisgæslunnar og tryggjum þar af leiðandi áframhaldandi öryggi landsmanna, ferðamanna og sjóferenda og allra annarra. Ég tala nú ekki um ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga. Margir benda á að það sé orðið eitt af stærstu hlutverkum Landhelgisgæslunnar að aðstoða ferðamenn og kannski er eðlilegt að við mætum Landhelgisgæslunni með því að setja meiri fjármuni til hennar vegna álagsins sem skapast af auknum ferðamannastraumi.

En það er annar vinkill á þessu máli sem menn hafa verið að ræða. Á síðustu árum hafa sjúkraflutningar af landsbyggðinni aukist alveg gríðarlega, bæði með bílum og flugi. Oft og tíðum hefur verið kallað til Landhelgisgæslunnar að nýta þyrluna. Oft er þyrla betri kostur en flugvél eða bíll. Möguleiki er, og það hefur verið rætt á Suðurlandi, að gera samning við t.d. Norðmenn sem reka slíkar sjúkraþyrlur, að fara út í tilraunaverkefni sem væri þá hugsanlega til þess að leysa sjúkraflugið að nokkru leyti af og spara verulega fjármuni í því og auka öryggið umtalsvert. Með því að hafa staðsetningu þyrlanna mismunandi eftir því hvaða árstími er og t.d. hvenær stórar mannfjöldahátíðir eru haldnar og jafnvel eftir veðri, er hægt að tryggja hærra öryggisstig, betri þjónustu, sem er hugsanlega ekkert dýrari þegar upp er staðið. Annars nýtum við mjög dýrt sjúkraflug sem er ekki nægilega gott.

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað slíkt hafi komið inn á borð hjá dómsmálaráðherra. (Forseti hringir.) Það ætti væntanlega líka að vera á borði heilbrigðisráðherra ef svo væri.