146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir góða umræðu hér í dag og fyrir yfirlýsingu hæstv. dómsmálaráðherra um að verkefnisstjóri sé að hefja vinnu við að skoða möguleikana og að þá yrði mögulega hægt að flýta ferli, a.m.k. undirbúa ferlið sem er mikið. Þetta er tæknilegt mál og það þarf að vanda mjög vel til verka.

Það kemur fram í skýrslu stýrihópsins sem hann skilaði í janúar í fyrra að hægt væri að spara um 500 milljónir í rekstri Gæslunnar með því að eiga þyrluna í staðinn fyrir að leigja. Það kemur líka fram að rekstrarkostnaður við hverja áhöfn sé um 260 milljónir, eina áhöfn á þyrlu á ári. Í dag erum við með fimm áhafnir. Með sjö áhöfnum og nýjum, stórum þyrlum værum við búin að auka töluvert við getu Gæslunnar á ársvísu. Þá held ég að hlutfallið fari upp í 95% þar sem menn geta brugðist við með tveim þyrlum og áhöfnum, að fara langt út á haf sem er gríðarlega mikilvægt mál. Það væri áhugavert að taka dýpri umræðu hér síðar þar sem umræðan fór í ýmsar áttir, varð um sjúkraflug og annað. Ég hef litið mjög til þess í umræðunni á Íslandi hvernig Norðmenn sinna sjúkraflugi, tekið nyrsta hluta Noregs sem dæmi um það, sem væri þá fróðlegt þegar við erum að tala um minni þyrlur.

Ástæðan fyrir því að við erum að kaupa svona stórar, níu tonna, og dýrar þyrlur snýr að því að afkastagetan eða björgunargetan nær langt út fyrir landsteinana.