146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

Landhelgisgæslan og endurnýjun þyrluflotans.

[17:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað. Ég vil nefna hvað rekstrarféð varðar að við erum öll, held ég, sammála um að það er ekki nægilegt að kaupa nýjar og fínar þyrlur, það þarf auðvitað að vera hægt að manna þær. Menn eru vel meðvitaðir um að fjölga þarf í áhöfnum í þyrlunum þegar þar að kemur.

Ég vil hins vegar mótmæla því sem fram kom í ræðum einhverra hv. þingmanna um að staðið hefði yfir skipulagt fjársvelti Landhelgisgæslunnar. Slíkar fullyrðingar eiga ekki við nokkur rök að styðjast, hvorki í skjölum né málflutningi Landhelgisgæslunnar sjálfrar, og eru ekki til þess fallnar að varpa nokkru ljósi á rekstrarvanda sem að einhverju leyti er varðandi einstaka þyrlur. Menn hafa nefnt að leigðar hafi verið flugvélar og varðskip suður á bóginn í sérstök verkefni. Það er alveg rétt að það er að einhverju leyti gert til tekjuöflunar. En menn mega heldur ekki gleyma að með því hefur Landhelgisgæslan öðlast gríðarlega mikilvæga reynslu og þekkingu sem hún hefði ekki, eða í öllu falli trúlega í minna mæli, haft tök á að afla sér hér á landi. Það er ekkert svo illt að ekki boði eitthvað gott.

Það var ágæt umræða um sjúkraflug. Ég tek undir með málshefjanda að það væri ánægjulegt og að held ég gagnlegt að eiga sérstaka umræðu um það. Landhelgisgæslan hefur lögbundnu hlutverki að gegna þegar kemur að sjúkraflugi. Umfang sjúkraflugs Landhelgisgæslunnar hefur vaxið alveg gríðarlega undanfarin ár. Ég tek sem dæmi tölur sem ég hef um að sjúkraflug hér á landi voru í fyrra 806, fjölgaði um 14% frá árinu 2015, og þar af flaug Landhelgisgæslan 132 flug. (Forseti hringir.) Það er til skoðunar að kanna frekari aðkomu Landhelgisgæslunnar að sjúkraflugi en ég vil þó nefna strax og árétta að það eru auðvitað samkeppnissjónarmið sem eiga líka við og menn þurfa að líta til.