146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

takmarkanir á tjáningarfrelsi.

297. mál
[17:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég má einnig til með að lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli vera að hreyfast eitthvað áfram. Ég vil bæta við þeirri spurningu hvort hæstv. ráðherra sjái tilefni til að bæta enn frekar þá þjálfun og fræðslu sem dómarar fá vissulega um vernd tjáningarfrelsis en einnig um vernd borgararéttinda almennt. Eins og við sjáum er víða pottur brotinn þegar kemur að vernd borgararéttinda einstaklinga á Íslandi, t.d. með mjög tíðri einangrunarvist gæsluvarðhaldsfanga. Það er eitt af mörgum dæmum þar sem við virðumst standa aftar öðrum þjóðum í vernd borgararéttinda.

Sigurplastsdómurinn var nefndur hér áðan af fyrirspyrjanda. Hann kom eftir ítrekaða dóma Mannréttindadómstólsins um nákvæmlega þessi sömu efni. Er ekki tilefni til að standa að símenntun dómara þegar kemur að vernd borgararéttinda, sérstaklega tjáningafrelsis að sjálfsögðu, þar sem við virðumst langoftast fá yfir okkur (Forseti hringir.) dóma þar? En það má spyrja hvort það sé ekki von á fleiri dómum vegna annarra og jafnvel alvarlegri brota á borgararéttindum einstaklinga.