146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

takmarkanir á tjáningarfrelsi.

297. mál
[17:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Þeirri spurningu var beint til mín um mögulega fræðslu til dómara eða endurmenntun, væntanlega í ljósi þess að dómstólaráð hélt slíka fræðslu eins og ég gat um í ræðu minni áðan. Það er auðvitað ekki ráðherra að segja dómurum fyrir verkum eða koma þeim í endurmenntun. Það segir sig sjálft að dómstólarnir eru sjálfstæðir. Ég vek hins vegar athygli á því að samkvæmt nýjum úrskurði kjararáðs er t.d. gert ráð fyrir, hafi menn áhuga á endurmenntun dómara, að á hverjum tíma sé alltaf einn hæstaréttardómari í námsleyfi. Ég held því að menn þurfi ekki að örvænta, held reyndar að allir dómarar sem starfa hér á landi séu starfi sínu vaxnir án endurmenntunar. En það er auðvitað öllum hollt að stunda sjálfsskoðun og alls kyns fræðslu og endurmenntun til starfsloka.

Ég get alveg staðfest það sem ég sagði að ég hef áhuga á að breyta ákvæðum hegningarlaga, XXV. kafla, um ærumeiðingar og fleira. Svo það sé nú sagt. Það liggja fyrir drög að frumvarpi til laga um breytingar á almennum hegningarlögum. Það er annars vegar breyting á 233. gr. a sem þessi stýrihópur sem málshefjandi vitnaði til gerir ráð fyrir að haldist enn þá inni. Hins vegar er frumvarp til nýrra laga um ærumeiðingar, sem mér líst alveg ágætlega á en geri þó einhverjar athugasemdir við. Svo ég nefni nú eitthvað er þar t.d. gert ráð fyrir brottfalli á ákvæðum um bann við smánun þjóðhöfðingja og annað. Bent hefur verið á að við erum bundin alþjóðlegum skuldbindingum hvað það varðar. Það kann að vera að einhver útfærsla á því þurfi að vera önnur en þarna er gert ráð fyrir. En ég hef fullan hug (Forseti hringir.) á því að leggja fram mál sem þessu tengist á næsta þingi og vænti áhugaverðs samstarfs og góðs af þingheimi hvað það varðar.