146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

mannréttindasjónarmið í íslenskri löggjöf o.fl.

304. mál
[17:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins um viðeigandi réttarvernd hælisleitenda hér á landi, en eins og hæstv. ráðherra og þingheimur eru meðvituð um samþykktum við nýverið lög sem afturkalla rétt flóttamanna til að fá frestun réttaráhrifa ef Útlendingastofnun metur umsókn þeirra bersýnilega tilhæfulausa á þeim grunni einum að þeir koma frá svokölluðum öruggum ríkjum.

Ég spyr í þessu ljósi hæstv. ráðherra hvort hún telji viðunandi að þessi grein fái að standa, sér í lagi þar sem hún gengur gegn 1. mgr. 13. gr. tilskipunar 2008/115/EB sem hefur verið lögfest hér á landi og brýtur verulega á málsmeðferðarréttindum flóttamanna. Nú erum við að ræða um málsmeðferðarréttindi flóttamanna hér á meðal. Telur ráðherra virkilega að sér sé stætt á að halda þessum lögum í gildi? Ætlar hún að beita sér fyrir því að þeim verði breytt til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar (Forseti hringir.) Íslands sem hafa verið lögfestar?