146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

endómetríósa.

298. mál
[17:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil taka undir það sem hefur verið sagt, að um er að ræða mjög hátt hlutfall kvenna á Íslandi. Eins ánægð og ég er með að menn séu farnir að meðhöndla sjúkdóminn af þeirri alvöru sem hann á svo sannarlega skilið tel ég mjög mikilvægt að ráðherrann hlusti á það sem kom fram á ráðstefnunni 8. mars sl., ég veit að aðstoðarmaður hans sat þá ráðstefnu, um að álagið á því góða starfsfólki sem sinnir þessum sjúklingahópi er gífurlegt. Það hafa alls ekki verið settir nægir fjármunir eða nægur mannafli til að sinna þeim stóra hópi kvenna sem þjáist af sjúkdómnum.

Þetta hefur mikil áhrif á lífsgæði kvenna. Ég veit að það getur verið erfitt að greina sjúkdóminn en þess vegna skiptir svo miklu máli að tryggja að heilbrigðisstarfsmenn og starfsmenn skóla séu upplýstir um einkennin og þetta sé eitt af því sem menn velti fyrir sér þegar konur með einkenni koma inn í heilbrigðiskerfið.

Ég vil fá að bæta við einni spurningu til hæstv. ráðherra. Nú skilst mér að í fjármálaáætlun næstu fimm ára sé viðbótin inn í heilbrigðiskerfið í kringum 20%. Þar inni er nýr Landspítali. Hefur ráðherrann tryggt fjármuni í þau verkefni sem hann fór hér í gegnum? Hefur hann tryggt fjármuni til að bæta þjónustuna (Forseti hringir.) við þær hundruð ef ekki þúsundir kvenna sem eiga í vanda vegna sjúkdómsins hér á landi?