146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

endómetríósa.

298. mál
[18:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Mér finnst mikilvægt, eins og kom fram í umræðunni, að heilbrigðisþjónusta sé jöfn fyrir alla. Það á að vera jafnt aðgengi fyrir alla og það á ekki að vera misjöfn þjónusta við kynin. Það er algert grundvallaratriði. Þess vegna finnst mér þetta mikilvæg umræða. Ég held að að einhverju leyti hafi fræðslu verið ábótavant. Eins og ég sagði í fyrri ræðu er mjög mikilvægt að auka fræðslu meðal almennings, í skólunum en ekki síst hjá heilbrigðisstarfsfólki, til að tryggja bæði betri skilning á sjúkdómnum en líka betri og snemmtækari greiningu, einmitt til að tryggja að konur fái góða meðhöndlun.

Varðandi mikið álag á sérhæfðum starfsmönnum get ég tekið undir það, enda hefur hin allra seinustu ár verið aukið í og þeim fjölgað, þótt vissulega sé þetta ekki stór hópur. Ég tel mikilvægt að leggja áherslu á teymisvinnu og að það séu þá stærri teymi sem séu meðvituð um sjúkdóminn og þjónustu við sjúklinga. Eins held ég að þessi nýja þjónusta um síma og tölvupóst sé mikilvægt innlegg.

Um fjármunina sem hv. fyrirspyrjandi spurði um í lokin verð ég að segja að þetta er auðvitað hluti af starfi Landspítalans og heilbrigðiskerfisins. Við eigum að leggja áherslu þarna áfram. En hér er ekki (Forseti hringir.) um svo mikla fjármuni að ræða að við sjáum endilega merki um þá í fjármálaáætlun, sem er frekar víð rammaáætlun um fjármuni. En þetta mun koma inn í nánari fjárlagagerð þegar kemur að henni.