146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

þjónusta vegna kvensjúkdóma.

302. mál
[18:13]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir orð stallsystur minnar áðan varðandi það að skoða þá skýrslu og þessa þingsályktun og það sem þar undir liggur. Það eru nefnilega einmitt þessi skil þarna á milli. Börnin ráða yfir líkama sínum sjálf, svona almennt, og ber að virða það þótt þau séu ekki orðin 18 ára. Hlutverk okkar foreldra er auðvitað verndarhlutverk og við eigum að stuðla að því að kynna þeim allt sem tilheyrir kynheilbrigði, en þá hafa þau þetta frelsi. Það er líka mikilvægt að hafa það í heiðri þegar ungar stúlkur sérstaklega leita á kvennadeildina á Landspítala, og eins þegar börn fara inn á barnadeildirnar að vísa þeim í réttan farveg.

Fræðsla og forvarnir eru mjög mikilvægar í þessu sem og öllu öðru. Ég verð að taka undir það sem sagt var um heilsugæsluna í framhaldsskólum og að hjúkrunarfræðingar séu staddir í öllum framhaldsskólum og grunnskólum, það er auðvitað afar mikilvægt og skiptir sköpum oft og tíðum fyrir kynheilbrigði ungs fólks, bæði stelpna (Forseti hringir.) og stráka.