146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kynsjúkdómar.

471. mál
[18:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn um kynsjúkdóma: Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að bregðast við þeirri þróun að tíðni kynsjúkdóma, einkum sárasóttar og lekanda, en einnig HIV, hefur aukist?

Þetta er mikilvæg fyrirspurn. Mér er heiður að fá að svara henni.

Í desember á síðasta ári barst velferðarráðuneytinu minnisblað frá sóttvarnalækni varðandi aukningu á kynsjúkdómum eða á tíðni kynsjúkdóma á Íslandi. Fram kom á þessu minnisblaði að aukningin væri ekki einsdæmi hér á landi, heldur sýna upplýsingar frá öðrum vestrænum löndum því miður svipaða þróun. Þá kom fram á minnisblaðinu að sóttvarnalæknir teldi brýnt að gripið yrði til opinberra aðgerða til að snúa þessari þróun við. Lagði hann til aukna samvinnu velferðarráðuneytis og sóttvarnalæknis við heilbrigðiskerfið, við skólakerfið og ýmis grasrótarsamtök. Jafnframt lagði sóttvarnalæknir til að stofnaður yrði aðgerðahópur til að móta og hrinda í framkvæmd opinberum aðgerðum sem miða að því að stemma stigu við útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi.

Til að bregðast við þróun á tíðni kynsjúkdóma hér á landi setti heilbrigðisráðherra á fót starfshóp sem skipaður var 13. mars sl. Hópurinn hefur það hlutverk að setja fram tillögur um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi. Starfshópurinn leggur einkum áherslu á aðgerðir gegn HIV, sárasótt, lekanda og klamydíu. Þá mun hópurinn kalla til ráðgjafar ýmsa aðila sem sinna forvarnastarfi, svo sem Samtökin 78, HIV-Ísland, forsvarsmenn verkefnisins Frú Ragnheiður — skaðaminnkun, fulltrúa heilsugæslunnar, félagsfræðinga, kynfræðinga, auk annarra aðila sem hafa reynslu og þekkingu á þessu sviði. Fyrirhugað er að starfshópurinn skili tillögum sínum á haustmánuðum. Þess má geta að sóttvarnalæknir hefur þegar hafið samstarf við Samtökin 78 og fleiri grasrótarsamtök.

Ég bind miklar vonir við tillögur starfshópsins sem starfar undir forystu sóttvarnalæknis. En í starfshópnum eiga auk hans yfirlæknar á smitsjúkdómadeild og húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans, auk fulltrúa ráðuneytisins og fulltrúa sóttvarnaráðs. Í framhaldi af tillögu starfshópsins verða tillögurnar teknar til meðferðar í ráðuneytinu með það að markmiði að þær komist til framkvæmda eftir atvikum að undangengnu kostnaðarmati.

Svo ég bregðist við fyrirspurn eða hvatningu hv. fyrirspyrjanda núna áðan þá tek ég undir að við eigum að gera okkar besta til þess að fjármagna þessar tillögur þegar þær koma fram, auðvitað með fyrirvara um hverjar þær eru. En við vitum að grundvallar- og lykilstarfið er að styrkja kynfræðslu og upplýsingagjöf til almennings, ekki síst í skólum, og tengist það svörum og umræðum í fyrri fyrirspurnum hér í dag, að þetta felist að einhverju leyti í tillögum starfshóps um endurskoðun laga nr. 25/1975.

Þess utan vil ég benda á ánægjulega þróun sem orðið hefur núna á síðustu mánuðum, að í kjölfar breytinga og styrkingar í heilsugæslunni, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sjáum við aukna framlegð í aðgengi einstaklinga að heilsugæslunni. Ég held að heilsugæslan sé mjög mikilvægur póstur í þessari baráttu og upplýsingagjöf. Það er þá alla vega jákvæð staða sem hægt er að beina þessum vanda inn í að einhverju leyti.

Ég þakka góða fyrirspurn og hlakka til umræðunnar.