146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup á nýjum krabbameinslyfjum.

472. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Í aðdraganda kosninganna í haust voru flokkarnir spurðir um afstöðu til krabbameinslyfja og þeirrar stöðu að krabbameinssjúkt fólk fengi ekki bestu lyfin sem völ er á á hverjum tíma. Þá svaraði formaður Bjartrar framtíðar mjög skýrt: Það gerist ekki á vakt Bjartrar framtíðar að krabbameinssjúkt fólk fái ekki bestu lyf sem völ er á. Það sagði núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra þá, í aðdraganda kosninga. Við hæstv. ráðherra áttum orðaskipti um þessi orð í óundirbúnum fyrirspurnatíma í febrúar en nú spyr ég hæstv. ráðherra, vegna þess að tíminn líður, hvort fyrirheit ríkisstjórnarinnar frá því í febrúar á þessu ári hafi verið efnd um að fé yrði veitt til kaupa á nýjum krabbameinslyfjum.

Ég hef af þessu nokkrar áhyggjur. Hæstv. ráðherra er farinn að tala með dálítið öðrum hætti núna en hann gerði í aðdraganda kosninga. Fyrir nokkrum dögum, 29. apríl, talaði hann um að málaflokkurinn væri flókinn, það þyrfti að forgangsraða o.s.frv., allt kunnuglegt, en ég spyr ráðherrann vegna þess að orð hans voru býsna skýr í aðdraganda kosninga: Hve miklu fé verður varið til kaupa á nýjum krabbameinslyfjum á þessu ári? Hversu margir sjúklingar munu eiga þess kost að fá ný krabbameinslyf og hvenær verða lyfin tiltæk?

Það vill svo til að þarna er um að ræða fólk sem er í öngum sínum, fólk sem má engan tíma missa. Það er svo einfalt að það hefur ekki tíma til að bíða eftir að ráðherrann forgangsraði eða vísi málinu inn í frekari stefnumörkun sem er svo sem iðulega gert í þeim stóra og yfirgripsmikla málaflokki sem hæstv. ráðherra fer fyrir.

Orð hans voru skýr í aðdraganda kosninga og í febrúar voru fyrirheitin líka skýr, að til stæði að veita fé til kaupa á nýjum krabbameinslyfjum til að tryggja nákvæmlega það að krabbameinssjúkt fólk fái bestu lyf sem völ er á á hverjum tíma, líkt og hæstv. ráðherra lagði áherslu á í aðdraganda kosninga og sú sem hér stendur er sammála honum um það.