146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup á nýjum krabbameinslyfjum.

472. mál
[18:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, kærlega fyrir að fylgja þessu máli jafn vel eftir og raun ber vitni. Ég þakka jafnframt ráðherranum fyrir svör hans eins langt og þau ná. Ég myndi eiginlega vilja bæta aðeins við hér því að þó að ég skilji að það geti verið erfitt fyrir ráðherrann að upplýsa um verð þegar ekki liggja fyrir samningar væri ágætt að fá svör um hvort miklar sveiflur séu í tíðni greininga á milli ára. Það væri þá eitt af því sem við þyrftum svo sannarlega að skoða. Ég vil líka aðeins fá að benda á að eins mikilvæg og lyfin eru — og við verðum einfaldlega að tryggja að þar fáist fjármagn og sjúklingar fái nauðsynleg lyf — eru líka aðrir þættir sem þarf að bæta í þjónustu við krabbameinssjúklinga. Ég nefni sem dæmi starfsemi Ljóssins sem sinnir endurhæfingu fyrir krabbameinssjúklinga sem hefur svo sannarlega þurft á meiri fjármunum að halda. (Forseti hringir.) Þótt við höfum reynt að bæta í þarf að horfa heildstætt á þetta og horfa til þess hvernig við getum stutt og hjálpað sem best við að takast á við þennan hræðilega sjúkdóm, krabbamein.