146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup á nýjum krabbameinslyfjum.

472. mál
[18:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Ég þakka fyrir það, forseti, og ég þakka umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar að taka undir þetta með að viljinn dugi ekki. Orð ráðherrans í aðdraganda kosninga voru mjög skýr. „Það gerist ekki á vakt Bjartrar framtíðar. Það gerist ekki.“ En núna er það orðið „eins og mögulegt er“, „viljinn sé skýr“ o.s.frv.

Ég bið hæstv. ráðherra að tala skýrar. Hvað segir hæstv. heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé við þau sem enn eru að bíða, við konuna sem ég talaði við áðan? Hún er á leiðinni upp á Landspítala á morgun og segir: Það er svo lýjandi að þurfa að bíða. Það væri eiginlega betra að vita nokkurn veginn hvenær við ættum von á einhverju.

Það er alveg skiljanlegt að þarna séu ýmsir óvissuþættir, að það þurfi að ræða við lyfjagreiðslunefnd og að ekki liggi fyrir hversu mikið fé, hvenær nákvæmlega og eitthvað á annan milljarð o.s.frv. Hæstv. ráðherra verður samt að svara skýrar: Hvenær verða þessi lyf til staðar? Við hverju má fólk búast sem er að kljást við krabbamein núna og gæti notið þessara lyfja ef þau væru komin? Á það fólk að bíða í vikur eða mánuði eða á það að sætta sig við að tíminn dugi ekki? Að það líði of langur tími?

Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fólk sem er í þessari stöðu að fá skýr svör því að þegar fólk glímir við alvarlega sjúkdóma er allra verst að glíma í ofanálag við þá óvissu sem verið er að bjóða krabbameinssjúklingum upp á núna.