146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

kaup á nýjum krabbameinslyfjum.

472. mál
[18:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er skýrt og kom fram í fyrri ræðu minni að lyfjagreiðslunefnd er að skoða innleiðingu nýrra lyfja. Það hefur að einhverju leyti tafist vegna þess að beðið hefur verið eftir samningum um innkaup og afsláttarkjör. Ráðherra tekur ekki sjálfur ákvarðanir um innleiðinga ákveðinna lyfja, það er fagleg ákvörðun tekin af sérfræðingum á Landspítalanum þegar kemur að því að setja ný lyf á forgangsröðunarlista. Það er horft til reynslunnar og innleiðingar í nágrannalöndunum, sérstaklega á Norðurlöndum. Síðan tekur lyfjagreiðslunefnd endanlega ákvörðun út frá öllum þessum póstum.

Ég vísa aftur til orða minna í fyrri ræðu.

Þrátt fyrir að íslenska krónan og gengið hafi verið okkur hagstætt á síðasta ári fór kostnaður í lyfjaliðnum ein 18% fram yfir fjárlög á síðasta ári og það er staðan sem við stóðum frammi fyrir strax í janúar þegar ég tók við embætti. Við brugðumst við því í kjölfar samþykktar ríkisstjórnar strax í janúar. Við gerum ráð fyrir því í fjármálaáætlun sem liggur núna fyrir þinginu og er til meðhöndlunar þess að lyfja- og hjálpartækjaliðurinn hækki meira en aðrir liðir, ef ég man rétt um 18,5% á árinu 2018, á milli ára, og vel yfir 40% — ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig — á tímabilinu. Við erum vissulega að horfa til þeirrar þróunar sem er fyrirliggjandi þegar kemur að lyfjum.

Varðandi sameiginleg útboð hef ég sagt áður í þessum stól að ég vinn að því með kollegum mínum á Norðurlöndum (Forseti hringir.) eins og margir forverar mínir í stól heilbrigðisráðherra hafa sömuleiðis gert. Ég leyfi mér að vera hæfilega bjartsýnn um að það horfi til sameiginlegra útboða.

Ég reyni að brjóta ekki metið.

(Forseti (JÞÓ): Hæstv. heilbrigðisráðherra braut metið með því að nefna það að hann skyldi ekki brjóta metið.) [Hlátur í þingsal.]