146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

skipulagslög og byggingarreglugerð.

368. mál
[18:56]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Mér er það ánægja að fá að skýra áherslur mínar og áherslur frá þeim starfshóp sem starfar á vegum stjórnvalda að tillögum að lausnum á húsnæðisvandanum sem við glímum við núna.

Þegar horft er til annars vegar byggingarreglugerðar og hins vegar skipulagslaga þá er fyrst og fremst í hinu síðarnefnda tilfelli horft til þess hvernig megi hraða undirbúningstíma framkvæmda, einfalda með einhverjum hætti þann tíma, sér í lagi með aukinni áherslu á þéttingu byggðar, sem tekur að fá útgefin byggingarleyfi á nýjar framkvæmdir. Það er vitað mál, og á sérstaklega við þegar um verkefni í þéttingu byggðar er að ræða, að um er að ræða verulegar kostnaðarframkvæmdir strax í upphafi, þ.e. gjarnan er verið að kaupa upp byggðarreiti, jafnvel rífa niður byggingar sem fyrir eru og greiða þar af leiðandi talsvert hátt fyrir hina eiginlegu lóð sem nota skal síðan undir framkvæmdina. Þar af leiðandi er ljóst að upphaflegur kostnaður getur verið umtalsverður og fjármagnskostnaður sömuleiðis ef framkvæmd eða undirbúningur framkvæmdar dregst mjög á langinn.

Þeir aðilar sem í hópnum sitja, sem koma frá fjórum ráðuneytum auk sveitarfélaga, eru sammála um að þetta sé raunverulegt vandamál og þess vegna þurfum við að huga að því hvernig megi einfalda skipulagslöggjöfina með það að augnamiði að stytta undirbúningstíma framkvæmda án þess þó að brjóta á andmæla- eða kærurétti íbúa eða þeirra sem kunna að eiga hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðra framkvæmda og án þess að það komi niður á gæðum þeirra íbúða sem verið er að undirbúa byggingu á.

Þess má geta í því samhengi að frændur okkar Norðmenn hafa nýverið gengið í gegnum svipaðar breytingar á skipulagslöggjöf sinni, einmitt með sama markmið, að stytta verulega undirbúningstíma framkvæmda, og með ágætum árangri. Þarna held ég að við getum gert vel í að stytta byggingartímann. Öll vitum við að kostnaður byggingarinnar endar á kaupanda.

Hvað byggingarreglugerð varðar hef ég líka tekið það skýrt fram að þar horfum við þess til hvernig við getum gert byggingarreglugerð sveigjanlegri, hvernig horfa megi til rýmisskilgreiningar og annarra þátta án þess að það brjóti gegn meginmarkmiðum aðgengis fyrir alla, sem ég held að við séum öll sammála um að verði að hafa að leiðarljósi. Auðvitað getum við líka horft til reynslunnar af byggingu smáíbúða, smærri eininga eins og t.d. stúdentaíbúða, og þess sem við getum lært af því í mögulegri yfirfærslu á litlar íbúðir fyrir ungt fólk með fyrstu kaupendur í huga.

Þetta er enn og aftur nokkuð sem við getum lært af nágrönnum okkar, t.d. í Noregi þar sem sama umræða hefur verið uppi. Það er alltaf þannig að auknar kröfur í byggingarreglugerð koma fram í kostnaði. Þegar rými eru stækkuð kemur það vissulega fram í heildarkostnaði íbúðar. Nú þekki ég ekki þær forsendur sem liggja að baki þeim kostnaðartölum sem hv. þingmaður vísar til, en hafa ber í huga að það er ýmislegt sem hefur áhrif á byggingarkostnað á hvern fermetra, þar með talið og ekki hvað síst fjöldi fermetra sem að baki liggur og hvers konar íbúðir er verið að byggja. Meðalkostnaður á fermetra getur vissulega verið lítið breyttur en t.d. má nefna að meðalstærð íbúða sem byggðar hafa verið á undanförnum misserum hefur stækkað mjög ört, sem heldur aftur af meðalkostnaði á hvern fermetra en þýðir að íbúðin verður mun dýrari fyrir vikið. Síðan hefur gengisþróun og annað unnið með okkur, enda talsvert hár kostnaður nýrra íbúða innfluttur.

Þarna er horft til þess í starfshópnum sem fyrr er vísað til hvernig við getum einfaldað og stytt undirbúning framkvæmda, hvernig við getum skerpt á byggingarreglugerð enn frekar, m.a. með hliðsjón af reynslu nágranna okkar, til þess að lækka byggingarkostnað og gera ungu fólki og fyrstu kaupendum auðveldara um vik að komast af stað á fasteignamarkaði, hvort sem horft er til kaupa eða leigu á húsnæði.