146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

leit að týndum börnum.

468. mál
[19:11]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa umræðu. Ég held að við getum öll verið sammála um alvarleika og mikilvægi þessa máls. Það er ánægjulegt frá að greina að í stuttu máli má segja að reynslan af þessu tilraunaverkefni hafi verið ákaflega góð. Samtöl mín við yfirmenn lögreglu á höfuðborgarsvæðinu benda ekki til annars en að því verði haldið áfram af sama metnaði og einkennt hefur verkefnið undangengin ár.

Þetta verkefni var styrkt í tvö ár, 2015 og 2016, um 10 milljónir hvort ár, af velferðarráðuneytinu, er núna fjármagnað af fjárhagsáætlun lögreglumembættisins. Í upplýsingum frá lögreglu kemur fram að þrjú ungmenni munu hafa látist í þessum strokuhópi árið 2014 en frá því að verkefnið var sett á laggirnar hafi ekkert ungmenni látist sem leitað hefur verið að með þessum hætti.

Einn starfsmaður lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur helgað sig algerlega verkefninu og vinnur það m.a. með MST-meðferðaraðilum meðan verið er að styrkja þjónustukerfið í kringum viðkomandi ungling. Það hefur m.a. leitt af sér að í stað þess að áður fór, ef ég man rétt, um helmingur barna sem leitað var að með þessum hætti inn á meðferðarheimili eins og Stuðla er það um eða innan við þriðjungur í dag eftir að verkefnið hófst.

Ekki er aðeins um það að ræða að viðbragðstíminn hafi styst, börnin finnist miklu fyrr en áður, heldur virðast úrræðin í kringum börnin einnig mun betri og styrkari en áður.

Olnbogabörn, sem hv. þingmaður vísaði til í fyrirspurn sinni, hafa lýst eindreginni ánægju með verkefnið og telja það hafa skilað umtalsverðum ávinningi. Barnavernd Reykjavíkur telur verkefnið sömuleiðis afskaplega gott og leggur áherslu á að gott samráð sé milli aðila í málefnum barnanna. Nú er svo komið að viðbragðstími lögreglu er að ég held um 20 mínútur að meðaltali frá því að Barnavernd sendir leitarbeiðni þar til málið hefur verið skráð, lýsing á barni kölluð út og það skráð eftirlýst í kerfum lögreglu. Eins og áður sagði er síðan sérstakur starfsmaður embættisins sem hefur helgað sig þeim málum og beitir sér þá fyrir skjótri leit.

Hvað varðar greiningu á fjölda barna var leitað að rúmlega 80 börnum á hvoru ári um sig, 2015 og 2016, eða alls 163. Þar af voru um 60 börn sem leitað var að í fyrsta skipti á hvoru ári, stúlkur voru aðeins fleiri en strákar. Það sem af er árinu 2017, talið til og með apríl, hefur verið leitað að 42 börnum og ungmennum en þar af var 21 barn sem leitað var að í fyrsta skipti, strákar voru 25 og stúlkur 17. Um 89% hópsins eru börn á aldrinum 14–17 ára en yngstu tvö börnin sem leitað var að á tímabilinu voru 11 ára.

Leitarbeiðnirnar berast allan sólarhringinn en flestar berast upp úr miðnætti. Sá tími sem börn voru týnd var nokkuð misjafn, allt frá einni klukkustund upp í 13 daga, það tímabil sem lengst var. Meðaltalið er um 31 klst., þ.e. að jafnaði er börnunum náð út úr þessum aðstæðum á rétt rúmum sólarhring. 10% leitarbeiðna eiga við um börn utan höfuðborgarsvæðisins en sem fyrr sagði hefur verkefnið verið fest í sessi hjá lögreglunni í Reykjavík og gerir embættið ráð fyrir að halda því áfram. Kostnaður er nú um 20 millj. kr. á ári en fjármagnið vegna ársins 2017 er tekið af rekstrarkostnaði lögreglu.