146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

leit að týndum börnum.

468. mál
[19:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og ráðherra fyrir þessi svör. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og óhuggulegt til þess að hugsa hversu há prósenta af þessum börnum sem leitað er að er undir lögaldri, tæplega 90%. Það er gríðarlega hátt hlutfall. Af þessu börnum eru í kringum tveir þriðju stelpur og meðalaldurinn er um 15 ár. Ef við erum að leita að 15–18 börnum á mánuði, undir 18 ára, eins og árið 2015, og svo kom ráðherra með nýrri tölur, er það gríðarlegur fjöldi. Það er mikilvægt að efla þetta starf. Dýrustu leitirnar í hverjum einasta mánuði kosta 450–500 þúsund. Kostnaðurinn hleðst fljótt upp. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því, miðað við fjármagnið sem lögreglan kallar eftir og ráðherra minnist á, að þetta eigi að fjármagna með fé lögreglunnar sem er allt of þröngur stakkur skorinn. (Forseti hringir.) Þetta málefni gæti þurft að láta undan eins og svo mörg önnur, þótt ég geri nú ráð fyrir að lögreglan bregðist fyrr við þessu en mörgu öðru.