146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

leit að týndum börnum.

468. mál
[19:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum kærlega fyrir greinargóð svör varðandi verkefnið um leit að týndum börnum. Það er ánægjulegt að heyra að árangurinn af því tilraunaverkefni sé góður og þetta sé orðið fastur hluti af starfsemi og fjárhag lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er spurning hvort hægt sé að útvíkka þetta og horfa til þess hvort þörf sé á sambærilegum úrræðum hjá lögreglunni annars staðar á landinu í leit að týndum börnum. Eins og ráðherra fór í gegnum, og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um það sama, er mikilvægt að finna börnin sem allra fyrst, að þau séu ekki í aðstæðum sem ógna öryggi þeirra. Ráðherrann nefndi hversu alvarlegt þetta getur verið og var þegar við vorum ekki með þessi úrræði og hver tíðni barna var sem létust.

Eins og ráðherrann sagði kostaði velferðarráðuneytið þetta tilraunaverkefni til helmings á móti lögreglunni, 10 milljónir. Það væri áhugavert að heyra frá ráðherranum hvernig hann sér fyrir sér að ráðstafa þeim fjármunum, hvort ætlunin sé að nýta þá fjármuni inn í ný verkefni, sem koma vonandi í aðgerðaáætluninni gegn ofbeldi. Er ætlunin að efla enn frekar MST-teymið og tryggja að það sinni verkefnum sínum hringinn í kringum landið eða fara þeir fjármunir í önnur verkefni sem ráðherrann telur mikilvæg svo að við getum stutt betur við viðkvæmustu einstaklinga okkar?