146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

ofbeldi gegn fötluðum börnum.

470. mál
[19:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég spyr um aðgerðir til að vinna gegn ofbeldi gegn fötluðum börnum. Við sjáum aukna tíðni tilkynninga um ofbeldi. Í fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra kom fram að tilkynningar um ofbeldi á tímabilinu 2007–2016 hefðu aukist, ekki síst tilkynningar um tilfinningalegt og sálrænt ofbeldi. Hins vegar má segja að það skorti betri upplýsingar um tíðni ofbeldis gegn fötluðum börnum. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta sérstaklega upp er sú að þótt ég telji að ný framkvæmdaáætlun í barnavernd sem liggur fyrir þinginu sé að mörgu leyti ágæt þá bar ég þá von í brjósti að þar yrði sérstaklega hugað að ofbeldi gegn fötluðum börnum í ljósi þess hversu viðkvæmur sá hópur er. Þess vegna er leitt að sjá að orðin „fatlað barn“ koma aðeins einu sinni fyrir í greinargerð ályktunarinnar en ekki textanum og þar er að auki fjallað um það sem var gert árið 2016 en ekki horft til framtíðar og þess sem við gætum gert.

Ástæða þess að ég nefni þetta er að í skýrslu um rannsóknir sem voru unnar í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnun kom fram að fötluð börn eru 3,2% líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir hvers konar ofbeldi. Þau eru næstum fjórum sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir líkamlegu ofbeldi og tæplega þrisvar sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þetta eru sláandi tölur og við sjáum þetta ekki í tíðni tilkynninga hjá okkur. Þetta ætti að birtast í tilkynningunum en gerir það ekki.

Þetta eru alþjóðlegar rannsóknir. Þegar við höfum borið okkur saman við önnur lönd hefur aftur og aftur komið fram að staðan er svo sannarlega yfirleitt ekki betri hér. Börn með þroskaskerðingu virðast samkvæmt þessari rannsókn vera í mestri hættu. Þar eru líka áberandi börn sem búa við heyrnaskerðingu. Börn með þroskaskerðingu eru tæplega fimm sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Við vitum að við búum við fordóma, þöggun, mismunun gagnvart fötluðum börnum og fötluðu fólki. Það er skortur á þekkingu á aðstæðum þeirra. Þess vegna kalla eftir því frá hæstv. ráðherra að hann svari því hvort hann sé tilbúinn til að hvetja nefndina til að gera ákveðnar breytingar á aðgerðaáætluninni til að huga sérstaklega að fötluðum börnum í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er verið að samþykkja. (Forseti hringir.) Svo eru það þessar sláandi tölur sem ég held að sé svo mikilvægt að við horfumst í augu við og gerum allt sem við mögulega getum til að koma í veg fyrir að svona gerist.