146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

ofbeldi gegn fötluðum börnum.

470. mál
[19:47]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn og aftur þessa ágætu umræðu. Það verður seint undirstrikað hversu mikilvægt mál hér er um að ræða og hversu mikilvægt er að við gerum betur í þessum efnum. Ég vísa aftur til þeirra úrræða sem til skoðunar eru innan ráðuneytisins varðandi það að efla eftirlitshlutverk ráðuneytisins sjálfs, efla sérstaklega hlutverk réttindagæslumanna og fjölga þeim og að sama skapi þjálfun þeirra og þekkingu á málaflokknum, sérstök aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og huga þar sérstaklega að stöðu fatlaðs fólks. Allt eru þetta gríðarlega mikilvægir þættir.

Hv. þingmaður nefndi löggjöf um Barnahús, úrræði sem hefur reynst einstaklega vel einmitt og orðið að alþjóðlegri fyrirmynd. Það hefur verið framlag okkar inn í þetta umhverfi og mikið eftir því tekið á sínum tíma og raunar enn. Það er alveg rétt að þar þarf að styrkja lagaumgjörð enn frekar og kannski vel við hæfi nú að ráðast í þá vinnu og þá ekki síst í því samhengi sem hér er rætt. Þetta er umræða sem við hljótum að vilja taka áfram.

Ég vona svo sannarlega að hv. velferðarnefnd taki málið til skoðunar í þessu ljósi en að sama skapi get ég fullvissað hv. þingmann um að þessi áherslumál verða höfð sérstaklega að leiðarljósi við mótun nýrrar áætlunar í barnaverndarmálum og ekki síður varðandi þá aðgerðaáætlun sem fyrirhugað er að smíða hér um aðgerðir gegn ofbeldi.

Ég þakka enn og aftur umræðuna.