146. löggjafarþing — 65. fundur,  15. maí 2017.

rýmkun reglna um hollustuhætti og matvæli.

443. mál
[19:53]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda mjög áhugaverða fyrirspurn um þetta mál. Fyrst ætla ég aðeins að rekja reglugerð um hollustuhætti, sem er auðvitað komin til ára sinna. Það er mjög mikilvægt að endurskoða mörg ákvæði hennar.

Minni háttar uppfærsla, þar sem tekin verða inn og breytt ákvæðum sem lítill ágreiningur er um, var kynnt á vef ráðuneytisins 24. mars sl. Ákvæði er varða staði sem heimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn á eru m.a. rýmkuð örlítið og ákvarðanir því tengdar fluttar frá ráðuneyti til heilbrigðisnefnda. Stefnt er að því að setja þessa breytingarreglugerð í næsta mánuði.

Næsta skref hjá ráðuneytinu er svo að endurskoða heildstætt ákvæði um dýrahald á opinberum stöðum. Liggur fyrir að fylgiskjal III með reglugerðinni, sem fjallar um húsrými og lóðir sem ekki má hleypa gæludýrum inn á, verði þá tekið til endurskoðunar.

Erindi borgarstjórnar Reykjavíkur um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga um dýrahald á opinberum stöðum hefur verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og hefur verið sent til umsagnar til Umhverfisstofnunar, Samtaka heilbrigðiseftirlitsráða á Íslandi, embættis landlæknis, Læknafélags Íslands og Astma- og ofnæmisfélags Íslands. Í erindinu er þeim tilmælum beint til ríkisvaldsins að rýmka reglur um hollustuhætti svo það sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvernig það kýs að haga reglum um á hvaða stöðum sé leyfilegt að hafa dýr, eins og fyrirspyrjandi fór í gegnum áðan.

Í reglugerð um hollustuhætti er fjallað um húsrými og lóðir sem ekki má hleypa hundum og köttum og öðrum gæludýrum inn á, en við verðum að skoða hvort hægt sé að taka einhverja staði út af þeim lista og rýmka enn frekar. Þá þarf að hafa í huga og skoða sérstaklega að gera greinarmun á því hvort viðkomandi þarf að vera á tilteknum stað, t.d. að sækja heilsugæslu eða vera í mötuneyti grunnskóla, eða hafi val um að fara t.d. á kaffihús, að gerður sé greinarmunur á þeim stöðum hvað varðar frelsi til þess að koma með dýr inn á.

Við þessa vinnu verður áfram haft samráð við haghafa. Ráðuneytið mun leggja áherslu á að ætíð verði tekið mið af velferð dýra sem og hagsmuna fólks, þar á meðal einstaklinga sem hafa ofnæmi fyrir gæludýrum. Ég vil segja það alveg hreinskilnislega að ég hef ekki tekið afstöðu til þess hvort það eigi að setja það í hendur einstakra sveitarfélaga hvar megi hafa gæludýr. Þó er það sem ég nefndi áðan ofarlega í huga hvað varðar muninn á stöðunum. Þetta hefur kannski með það að gera að sjálf er ég vön dýrum í sveit en ekki í borgum. En auðvitað skiptir máli að fara í gegnum þetta.

Fyrirspyrjandinn rakti það áðan, og ég er sammála henni í því, að við eigum ekki að vera að hafa reglur sem eru óþarfar. Ef reglur eru einhverjum til ama eigum við að skoða þær. Það er sannarlega þannig að þær reglur sem nú eru í gildi eru einhverjum til ama, það að mega ekki fara með hundinn sinn eða kött upp í strætó. Það er einhverjum til ama og þá eigum við að skoða það og erum að gera það.

Mig langar að nota tækifærið og nefna að Strætós bs. hefur sótt um undanþágu frá ákvæðum reglugerðar um hollustuhætti sem kveður á um að dýr mega ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Strætó hefur sem sagt áhuga á því að standa að tilraunaverkefni til eins árs þar sem gæludýr yrðu leyfð í almennum strætisvögnum. Þetta erindi höfum við sent til umsagnar Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefndar höfuðborgarsvæðisins og höfum fengið einhverjar umsagnir inn. Við erum að vinna úr því erindi Strætó. Það er stefnt að því að afgreiða erindi þeirra í júní.