146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan nýtur yfirburðatrausts í samfélaginu, 92% landsmanna treysta þeirri góðu stofnun, þetta kom fram í stuttri ræðu minni í gær, en 22% treysta hins vegar löggjafarsamkomunni, Alþingi. Það er stóra áhyggjuefnið. Er í mannlegu valdi að breyta þessu? Er þetta eitthvað sem Alþingi þarf að búa við og er þetta svipað hjá öðrum þjóðum? Þjóðin kallar eftir því að Alþingi taki á sig rögg. Eitt af stóru málunum fyrir síðustu kosningar var að breyta ásýnd þingsins, bæta vinnubrögð og auka traust. Þingmenn sem komu saman að loknum kosningum lýstu vilja sínum í þessa sömu átt. Eru einhver teikn um að þingmenn séu að vanda sig?

Ég er auðvitað nýgræðingur í þinginu og hver dagur upplifun og ný reynsla. Þær stundir koma að ég er furðu lostinn yfir verklagi og vinnubrögðum í þessu 63 manna þorpi þar sem sjö fjölskyldur hafast við. Hefðir ráða miklu, siðir og venjur og áferð, jafnvel klæðaburður.

Umræðan í gær með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var dæmigerð þar sem uppþot varð um sinn og allt ætlaði af göflunum að ganga vegna samskiptamáta framkvæmdarvalds og löggjafans. Slík orðræða bætir líklega ekki ímynd þingsins í huga almennings. Afköst eða skilvirkni þingsins er ekki mikil á hinn hefðbundna mælikvarða, en kannski á hann alls ekki við hér. Skipulagið er sérkennilegt og þingmönnum er gert erfitt um vik að undirbúa sig vel fyrir stór mál. Dagskrá liggur fyrir með skömmum fyrirvara, stundum undir nótt fyrir fundardag. Þetta er ítrekað umkvörtunarefni.

Ég geri mér grein fyrir að hér er fjallað um forna og virðulega stofnun sem á sér einstaka sögu, sem þarf engu að síður að svara kalli hvers tíma og jafnframt að vera traust ímynd stöðugleika. Keppikefli er að ýta undir vönduð og skilvirk vinnubrögð, hugmyndafræði straumlínustjórnunar er til. Er það eitthvað fyrir Alþingi?

Virðulegi forseti. Nefndir á vegum þingsins hafa verið skipaðar af minna tilefni.