146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku stóð ég ásamt fjölmiðlum í Vestmannaeyjum, Fréttum og Eyjar.net, fyrir íbúafundi og við ræddum samgöngumál. Það mættu 400 manns á fundinn og einhverjir fylgdust með honum á samfélagsmiðlum. Það er mikill hiti í Vestmannaeyjum yfir þeim samgöngum sem þar eru í boði núna meðan Herjólfur er í slipp. Það er auðvitað rannsóknarefni hverjum datt í hug að fá litla ferju sem er með einni vél og litla flutningsgetu til að sigla milli lands og Eyja, þurfti að fá undanþágu fyrir hana. Það þarf auðvitað að skoða hverjum dettur slíkt í hug, að bjóða 5.000 manna samfélagi, stærstu verstöð landsins, upp á slíkar samgöngur sem hafa verið með þeim eindæmum síðustu vikur að þær hafa verið nánast engar. Það hlýtur að vera krafa Eyjamanna til okkar á hinu háa Alþingi að við kippum þeim málefnum í lag og að þetta komi ekki fyrir aftur þegar Herjólfur fer í slipp.

Á þessum fjölmenna fundi voru háværar kröfur um bættar samgöngur til lengri tíma og breytingar á þeim samgöngum og kostnaði sem nú þegar liggur á Eyjamönnum. Á þessum fjölmenna fundi var samþykkt einróma af fundarmönnum að þegar siglt er í Landeyjahöfn skuli ávallt vera sex ferðir á dag að lágmarki, að þegar verði hafnar rannsóknir á Landeyjahöfn með það að markmiði að bæta innsiglingu hafnarinnar þannig að hægt verði að nýta höfnina sem heilsárshöfn, að fargjöld til Þorlákshafnar yrðu þau sömu og til Landeyjahafnar. Það er rík krafa um það. Og að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skila sér þannig beint til heimamanna. Við þurfum að hlusta á Vestmannaeyinga og þær sanngjörnu kröfur sem þeir setja upp í samgöngumálum.