146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil ræða við hv. þm. Pál Magnússon, formann atvinnuveganefndar, um afleiðingar kvótakerfisins. Þær afleiðingar hafa birst í gegnum árin með ýmsum hætti, bæði með uppsögnum starfsfólks í fiskvinnslu eins og gerðist á Akranesi þar sem HB Grandi sagði upp tugum fiskverkafólks, fólks sem hafði unnið þar í fjölda ára. Það var ekki mikill aðdragandi þar að og starfsöryggi þessa fólks er í uppnámi eins og öryggi starfsfólks í fiskvinnslu vítt og breitt um landið og þeirra sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu og búa í sjávarbyggðunum. Við vitum að framsalið í kvótakerfinu hefur haft þessar afleiðingar og það hefur verið gagnrýnt í gegnum árin en mér finnst einhvern veginn eins og menn láti sér það í léttu rúmi liggja. Það gengur umræða í einhvern tíma og svo jafnar hún sig og þá er ekkert gert með þetta. Engin stjórnvöld hafa haft kjark til þess að taka á þessum vanda.

Nú heyrðist mér hjá hv. þm. Páli Magnússyni að hann væri tilbúinn að skoða afleiðingar fiskveiðistjórnarkerfisins varðandi framsalið og samþjöppun með einhverjum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað gífurlega ábyrgð á þessu kerfi og þeim afleiðingum sem hafa verið fyrir byggðir landsins gagnvart fólki. Það vita allir sem vilja vita það og sjá.

Nú er kannski kominn tími til að sá flokkur sem hefur varið þetta kerfi með kjafti og klóm taki til hendinni og geri það þá í alvöru og geri þær breytingar á kerfinu að það taki tillit til starfsfólks sem hefur skapað þann auð sem þessi fyrirtæki búa við í dag, þessir risar sem stýra stærstum hluta af aflaheimildum í landinu og moka til sín arði, að þeir hafi einhverjar skyldur, að það séu einhverjar skilyrðingar varðandi útdeilingu aflaheimilda, byggðafestu aflaheimilda og starfsöryggi fólks í greininni. Við eigum þessa auðlind saman (Forseti hringir.) en ekki stóru risarnir eins og HB Grandi sem hótar bara að fara með vinnsluna úr landi ef þeir eru teknir á teppið.