146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Frú forseti. Það kemur kannski ekki nokkrum manni á óvart hvað ég ætla að ræða. Ég vil koma orðum að því hvernig komið er fyrir Akraneskaupstað vegna ákvörðunar stjórnar um hagræðingu í bolfisksvinnslu hjá HB Granda. Næstkomandi föstudag hefur störf nefnd sem er ætlað að ræða gjaldtöku í sjávarútvegi. Ég hef heyrt á orðum samstarfsfélaga minna í atvinnuveganefnd að það teljist óæskilegt að ræða aðra þætti en gjaldtöku í fiskveiðistjórn á meðan hópurinn starfar. Af fréttaflutningi að dæma um starfshóp sem hæstv. ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætlar sjálf að skipa verður það þannig, og það er sérstaklega álit fólks innan Sjálfstæðisflokksins á hópnum, að ef sá hópur ætlar að skila niðurstöðu sem þeim mislíkar eða það koma einhverjar grundvallarbreytingar í sjávarútvegi á bara að fella það í þinginu. Til hvers er þessi þverpólitíski starfshópur þá? Ef markmiðið er að helga meðalið sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi beitir er það heldur skammsýnt. Því biðla ég til samnefndarmanna minna. Strandveiðifrumvarp Pírata liggur fyrir atvinnuveganefnd. Með því að gera það að lögum tökum við stórt skref í að leiðrétta einn stærsta vankant á fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Við sníðum með því raunhæft þrep fyrir litlar útgerðir til að hasla sér völl í annars óréttlátu kerfi. Við gerum þeim sem hafa orðið verst úti vegna tilflutninga aflaheimilda kost á því að laða að sér minni útgerðir og með þessari nálgun vex úr þeirri sviðnu jörð gras sem þessi mannfjandsamlega nálgun fiskveiðistjórnar hefur skilið eftir.

Ég hef séð á fjölmiðlum að mörgum okkar, þvert á flokka, svíður niðurstaðan á Akranesi. Hvernig væri að gera eitthvað annað en að slá sig til riddara? Hvernig væri að gera eitthvað annað en að gaspra í fjölmiðlum? Hvernig væri að Alþingi tæki á rót vandans? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)