146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu við hæstv. félagsmálaráðherra um þetta brýna málefni sem er fátækt í íslensku samfélagi. Umræða um fátækt hefur kannski fengið byr undir báða vængi á undanförnum vikum í tilefni af útvarpsþáttum í Ríkisútvarpinu um fátækt. Það er þó ekki ný umræða því að við eigum tölur um fátækt, við eigum nýlegar tölur frá UNICEF á Íslandi um að 9,1% barna á Íslandi líði skort, sérstaklega þegar kemur að húsnæði. 9,1% barna þýðir 6 þús. börn og þar af líða um 1.600 börn það sem kallað er verulegur skortur. Þegar rýnt er í tölurnar sést að stór hluti þessara barna býr við óöruggt húsnæði, hefur ekki efni á því að halda upp á afmæli sitt, stundar ekki tómstundastarf og þannig mætti lengi telja. Fátæktin stelur draumum og vonum þessara barna, eins og 12 ára drengur á höfuðborgarsvæðinu orðaði það.

En fátækt fólk er ekki bara börn. Við höfum fátækt fólk í öllum aldurshópum. Þar nægir að horfa á tölur um lægstu laun, örorkubætur og ellilífeyri og bera þær saman við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins þar sem sést berlega að af þessum lægstu greiðslum er vandlifað.

Félagsmálaráðuneytið gaf út skýrslu á síðasta ári þar sem farið var yfir það sem kallað hefur verið sárafátækt, hvernig hún mælist á Íslandi. Sem betur fer hefur hlutfall þeirra sem teljast búa við sárafátækt lækkað á undanförnum árum, en eigi að síður er það sláandi að sjá hvernig sárafátækt er að mestu bundin við tvö lægstu tekjubilin í samfélaginu, hún er tíðari á meðal þeirra sem ekki eru starfandi, þ.e. sem eru atvinnulausir eða öryrkjar eða aldraðir, og hún er tíðari hjá leigjendum en öðrum. Og sárafátækt jókst meira hjá erlendum ríkisborgurum en íslenskum ríkisborgurum í kjölfar hruns.

Það skiptir máli í samfélagi þar sem við eigum allan þennan auð sem við vitum um, þar sem við eigum öll þessi tækifæri, að við sem störfum á Alþingi tryggjum það að allir búi við jöfn tækifæri. Þegar við ræðum um fátækt getum við ekki sleppt því að leita orsakanna. Þegar ég horfi á samfélagið sem við búum í og kerfið sem við búum við hlýt ég að draga þá ályktun að við búum við kerfi sem ýtir undir misskiptingu. Þar nægir að nefna skattkerfið því að við sjáum það svart á hvítu að skattbyrðinni hefur verið létt af þeim ríkustu á undanförnum árum en um leið hefur hún þyngst á tekjulægri hópa. Nægir þar að nefna auðlegðarskattinn annars vegar og matarskattinn hins vegar.

Við búum líka við kerfi þar sem félagslegt húsnæði hefur verið sett á markað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk, hvað þá fátækt fólk, á í vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið sem samt eru skilgreind mannréttindi. Við skulum líka horfa til þess að í kerfi okkar hefur greiðsluþátttaka sjúklinga aukist á undanförnum árum þó að nú hafi verið gerðar lagabreytingar sem eiga að tryggja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga, sem ber að fagna. En við búum líka við kerfi þar sem fólki eldra en 25 ára hefur verið gert erfiðara um vik að sækja sér menntun frá árinu 2014.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, þó að ekki heyri allir þessir málaflokkar undir hann þá er hann félagsmálaráðherra, hvernig hann hyggst beita sér gegn fátækt, hvernig hann telji að hið opinbera geti beitt sér gegn fátækt. Ég spyr um húsnæðisstuðning. Það veldur mér áhyggjum að sjá að í fjármálaáætlun þeirri sem nú liggur fyrir þinginu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur hins opinbera minnki á næstu árum, lækki um hátt á þriðja milljarð á næstu árum. Ég vil minna á það sem ég sagði áðan: Skortur hjá börnum er mestur á sviði húsnæðis og sárafátækt er mest meðal leigjenda, þannig að við verðum að horfa á húsnæðiskerfið og við verðum að horfa á félagslegar lausnir.

Ég spyr hæstv. ráðherra um kjör öryrkja og aldraðra. Við erum með þá stöðu að stórir hópar öryrkja og aldraðra fá laun undir 300 þús. kr., en lágmarkslaun í þessu landi eiga að hækka í 300 þús. kr. á næsta ári. Þessir hópar greiða samt sína skatta og skyldur til samfélagsins. Við verðum að horfa til þess hvernig við getum bætt framfærslu þessara hópa því að við sjáum það svart á hvítu þegar við skoðum neysluviðmið, framfærsluviðmið, að það skiptir verulegu máli fyrir þessa hópa, hver króna skiptir máli. Þá vil ég bara nefna það sem ég sagði áðan, þegar við erum að tala um eðlilegan hluta af lífinu, að taka þátt í tómstundum — hér eru hópar sem eiga ekki einu sinni fyrir mat þegar líður á mánuðinn.

Fleira mætti nefna. Ég nefni upphæð atvinnuleysisbóta, ég nefni tímabil atvinnuleysisbóta sem verið er að stytta samkvæmt fjármálaáætlun og fleira. Að mínu viti er fátækt blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi og stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn á það hvernig útrýma megi fátækt. Stjórnvöld ættu að vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfi okkar og bótakerfið þannig að enginn þurfi að búa við (Forseti hringir.) fátækt á jafn ríku landi og Íslandi, þannig að öll börn fái sömu tækifæri, óháð því inn í hvaða aðstæður þau fæðast. Þannig samfélagi getum við verið stolt af, (Forseti hringir.) frú forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að leggja fram sína sýn á þessi mál því að ég er viss um að hér á Alþingi getum við sameinast um aðgerðir til að útrýma fátækt úr íslensku samfélagi.