146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:20]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni, málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Þrátt fyrir að við höfum kröftugt atvinnulíf og tölur eru jákvæðari en oft áður er það skylda okkar sem hér störfum að beina sjónum okkar að þeim hópum sem höllum fæti standa. Hér hefur komið fram að þeir sem búa við sárafátækt séu helst þeir sem eru atvinnulausir, öryrkjar, aldraðir og leigjendur. Það hefur komið fram að þeir sem eru á leigumarkaði eiga einna mest á hættu að búa við skort. Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur af því að húsnæðisstuðningur eigi að minnka á tímabili ríkisfjármálaáætlunar, þ.e. fram til ársins 2022, en samkvæmt ríkisfjármálaáætlun get ég ekki betur séð en að það sé um 3 milljarða kr. minni fjárframlög árið 2022 en nú.

Einnig lýsi ég áhyggjum mínum af því að öryrkjar muni samkvæmt ríkisfjármálaáætlun búa áfram við krónu á móti krónu skerðingu næsta árið. Ég hef áhyggjur af því hversu hægt örorkulaun eiga að hækka næstu árin en samkvæmt umsögn Öryrkjabandalagsins varðandi ríkisfjármálaáætlun munu laun örorku hækka upp í 288.000 árið 2022.

Ég tel mjög mikilvægt að skoðaðar séu kerfisbreytingar á skattkerfinu í samræmi við það sem þingflokkur Framsóknarflokksins lagði til í aðdraganda síðustu kosninga þar sem við skoðum lægri skatta og horfum á lægri skatta á lægri hópa og millistétt og að við aukum við barnabætur og þær fylgi hverju barni og komi einna best þeim hópum sem hallari fæti standa í okkar góða þjóðfélagi.

En ég ætla að enda á þeim stað sem ég byrjaði á: Það er okkur alltaf mjög mikilvægt og ábyrgð okkar að horfa til þess hóps sem höllum fæti stendur í samfélaginu og íhuga og fara í aðgerðir sem þarf að fara í til að bæta hag þeirra.