146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:22]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir mikilvæga og þarfa umræðu. Ég tek undir margt sem hún hefur rætt hér og ætla ekki að endurtaka orð hennar.

Fátækt er ekki bara skortur á efnahagslegum gæðum, eignum, peningum og afleiðingar atvinnuleysis. Það er jafn mikilvægt að beina athygli að skorti á félagslegum gæðum, skorti á andlegri og líkamlegri heilsu, ótta, kvíða, ofbeldi og lélegri sjálfsmynd. Fátækt er sérstaklega sár þegar fólk upplifir skort á tækifærum til að hafa áhrif á eigið líf og samfélagið sem það býr í. Það er mín skoðun að allir eigi rétt á að lifa með reisn og virðingu.

Málshefjandi setti fram spurningar um hvernig ráðherrann hygðist beita sér gegn fátækt á Íslandi og hvernig hann teldi að hið opinbera gæti einna helst beitt sér gegn fátækt. Það er skoðun mín að við eigum fyrst og fremst að spyrja hvernig við getum greint rætur vandans og hvernig og hvaðan mismunun sprettur upp í samfélagi okkar. Í því samhengi er því eðlilegt að spyrja hvort andleg og félagsleg fátækt fái jafn mikla athygli og hin efnahagslega.

Við eigum viðamikið velferðarkerfi á Íslandi sem býður upp á félagslega þjónustu, skólaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og sinnir málefnum fatlaðra, aldraðra, öryrkja og barnavernd. Það er mín skoðun, eins og ég hef sagt áður og mun segja aftur, að samspil og virkni milli þessara kerfa er lykilatriði í að vinna gegn fátækt og við megum ekki láta fátækt viðgangast.