146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:35]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Við þurfum stöðugt að vinna saman að því verkefni að berjast gegn fátækt í íslensku samfélagi. Í greiningu sem unnin var fyrir Velferðarvaktina kom fram að staða fólks á húsnæðismarkaði og heilsufar þess skipti hvað mestu máli þegar kæmi að fátækt. Heimilisgerðin sjálf skiptir líka miklu máli, það væri sérstaklega einhleypt barnlaust fólk og einstæðir foreldrar með börn sem væru í mestri hættu að búa við fátækt. Þess vegna skiptir verulega miklu máli að við samþykktum hér á síðasta kjörtímabili nýtt húsnæðiskerfi, almenna íbúðakerfið, sem er einmitt hugsað til þess að styðja sveitarfélög og aðra, frjáls félagasamtök, til þess að byggja upp húsnæði fyrir fólk þar sem það þarf ekki að borga meira en 20–25% af tekjum sínum þegar búið er að taka tillit til annars húsnæðisstuðnings.

Ég vil hins vegar hvetja ráðherrann til þess að koma fram með þingsályktunartillögu sem lá hér fyrir þinginu en náðist ekki að afgreiða, sem er fjölskyldustefnan, þar sem einmitt er hugað að því hvernig við getum stutt betur við fjölskyldur, og að horfa til annarra tillagna sem Velferðarvaktin hefur komið fram með varðandi fátækt. Þar vil ég benda á tilraunaverkefnið TINNU, sem var tillaga sem kom frá Reykjavíkurborg og Velferðarvaktin tók undir og við fundum fjármuni til þess að styrkja. Ég held að það sé einkar mikilvægt að halda áfram með það verkefni.

Fram kemur í tillögum í ríkisfjármálaáætlun að ætlunin sé að gera breytingar á barnabótum, það eru aðrar tillögur sem Velferðarvaktin hefur lagt til. Það eru hins vegar engir fjármunir í fjármálaáætluninni til þess að gera þær breytingar. Þær munu kosta sitt og það er mjög brýnt að ráðherrann tryggi fjármuni til þess.

Ég vil nefna þrjú önnur atriði: Það eru gjaldfrjáls skólagögn, (Forseti hringir.) það var leitt að stjórnarþingmenn gátu ekki treyst sér til að styðja það mál hjá okkur í stjórnarandstöðunni; fríar skólamáltíðir; og að vinna vel með frjálsum félagasamtökum, sem (Forseti hringir.) hafa sérþekkingu á þessu verkefni.