146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Fátækt á Íslandi er þjóðarskömm við það ríkidæmi sem við búum við. Við erum að bregðast tugþúsundum Íslendinga og ungu fólki sem á að verða hér burðarás samfélagsins næstu áratuga. Þetta fólk fæðist með tilkall til sameiginlegra auðlinda okkar en ber því miður allt of lítið úr býtum. Einstaklingar og fjölskyldur berjast við að draga fram lífið á allt of lágum launum á rándýrum, ótryggum húsnæðismarkaði og það þarf að velja milli þess að borga reikninga, leyfa börnum að sækja tómstundir eða jafnvel að kaupa sér lyf. Afleiðingar fátæktar, hæstv. ráðherra, eru öllum kunnar, óöryggi, vanvirkni, félagsleg útskúfun, skömm og í versta falli sultur.

Hér sagði hæstv. ráðherra áðan að hver fátækur væri einum of mikið og að það ætti að vera auðvelt að sameinast um aðgerðir til þess að bregðast við því. Samt sem áður hefur ríkisstjórnin hafnað eðlilegu skattkerfi sem væri til þess fallið að jafna kjörin. Það á ekki að skerpa á þrepaskiptingu skattkerfisins, það á ekki að leggja á hátekju- eða auðlegðarskatt. Ríkisstjórnin hirðir ekki um að sækja aura af mjög háum fjármagnstekjum og lætur undir höfuð leggjast að ná í peninga af sanngjörnum arði af auðlindum, sleppir með öðrum orðum sanngjarnri tekjuöflun upp á tugi milljarða sem nýttust á þessum góðæristímum til að ráðast á fátækt. Þvert á móti ætlar hún að hvetja til aukinnar einkaneyslu með því að lækka virðisaukaskatt árið 2019 úr 24% í 22,5% og verður þar af tekjum upp á 13 milljarða sem myndu nýtast til þess t.d. að ráðast í aðgerðir gegn fátækt.

Ég mótmæli þessari (Forseti hringir.) forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)