146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum þessa umræðu, nema þeim sem litu á umræðuna sem einhvers konar brellu. Ég held að við hin séum sammála um að þessi umræða skipti máli. Hv. þm. Nichole Leigh Mosty talaði um að það væri mikilvægt að horfa á rót vandans. Þá skulum við horfa á rót vandans og afneita henni ekki: Já, það er meiri jöfnuður í launadreifingu á Íslandi en víða annars staðar, en það er gríðarleg misskipting þegar við horfum á skiptingu auðsins, skiptingu eignanna. Ríkustu 20% á Íslandi eiga hátt í 90% af öllum auð á Íslandi. Þetta er eitthvað sem má ekki tala um í þingsal, virðist vera, því að fólki finnst óþægilegt að ræða þessa mismunandi eignaskiptingu. En við skulum ekki ímynda okkur að við getum talað um þá sem verst standa í samfélaginu án þess að við getum talað um heildarmyndina. Það skiptir máli hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið, hvar við ætlum að sækja tekjurnar og það þarf að sækja tekjur til þess að við getum byggt upp það velferðarkerfi sem við teljum að dugi til að útrýma fátækt á Íslandi og allir geti búið við jöfn tækifæri. Við getum aldrei horft á einn hóp fátæks fólks án þess að horfa á heildarmyndina.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson vitnaði í eftirlætisbók mína eftir Tryggva Emilsson, Fátækt fólk. Þar segir líka að réttlætið komi aldrei að ofan og þar talaði fólk af þeirri reynslu sem það hafði af því að berjast árum og áratugum saman fyrir því að byggja hér upp velferð fyrir alþýðu á Íslandi.

Það skiptir máli þegar við stöndum á þeim tímamótum, frú forseti, að hér er efnahagslegur uppgangur sem ætti með sanni að nýtast öllum að við gerum það með réttlátum hætti. Það gerum við ekki nema með því að nálgast spurninguna um hvernig við innheimtum tekjur og hvernig við útdeilum þeim gæðum.

Ég lýsi áhyggjum af stöðu húsnæðismála og ég lýsi áhyggjum af stöðu þeirra hópa sem veikast standa, sérstaklega öryrkja, aldraðra og atvinnulausra og þeirra sem eru á lægstu laununum. Við vitum öll að tekjur þeirra margra hverra duga ekki til. Það eru þeir hópar sem er verið að fjalla um í skýrslunum og tölunum sem við erum að fara með (Forseti hringir.) og á bak við hverja einustu tölu (Forseti hringir.) er fólk með langanir og drauma, þrár og væntingar. Það er skylda okkar hér að skapa samfélag þar sem það fólk getur látið þessa drauma, þrár og væntingar rætast. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)