146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er þá tryggt að ég hef áheyrendur í salnum að þeirri löngu ræðu sem ég ætla að halda um þetta mál og ýmis önnur, hugleiðingar mínar um lífið, tilveruna og fleira slíkt. [Hlátur í þingsal.]

En kannski ég mæli bara fyrir nefndarálitinu. Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd höfum náð saman um þetta mál. Ég mælti fyrir nefndaráliti að lokinni 2. umr. Við fengum ábendingar í 2. umr. í þingsal og eins frá gestum og fólki sem hafði samband. Það urðu ekki miklar efnislegar breytingar á málinu á milli þessara tveggja umræðna, en einhverjar lagatæknilegar.

Í fyrra nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar um þetta mál var þess getið að nefndin tæki að hluta til undir fram komin sjónarmið um að þörf væri á sérstakri löggjöf um almenningssamgöngur. Í kjölfar 2. umr. sér nefndin ástæðu til að ítreka þá afstöðu sína að þörf sé á slíkri löggjöf. Beinir nefndin því til ráðherra að skipa við fyrsta tækifæri starfshóp sem vinni tillögur að breyttu lagaumhverfi í þessa veru. Við vinnuna verði lögð áhersla á að löggjöf um almenningssamgöngur endurspegli mikilvægi þeirra fyrir samfélagið í heild, ekki síst í ljósi velferðar- og umhverfissjónarmiða. Jafnframt verði lögð áhersla á að löggjöfin tryggi rekstrargrundvöll fyrir almenningssamgöngur að svo miklu leyti sem frekast er unnt. Ráðherra upplýsi Alþingi um skipan starfshópsins og um stöðu vinnunnar á haustþingi 2017.

Um þessa áherslu á sérstök lög um almenningssamgöngur var samhljómur við 2. umr. Eins var hana að finna í ýmsum ábendingum og umsögnum til nefndarinnar í vinnslu málsins.

Nefndinni hefur borist ábending um að í 10. gr. frumvarpsins eftir 2. umr., um ferðaþjónustuleyfi, sé ekki sérstaklega tiltekið að umsækjandi um ferðaþjónustuleyfi skuli hafa almennt rekstrarleyfi samkvæmt 4. gr., líkt og gert er í 9. gr., um rekstur sérútbúinna bifreiða. Þótt skýrt sé kveðið á um það í 1. mgr. 4. gr. að hver sá sem stundi flutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögunum skuli hafa til þess almennt rekstrarleyfi gæti valdið misskilningi að þess sé sérstaklega getið í ákvæði um sérútbúnar bifreiðar en ekki í ákvæði um ferðaþjónustuleyfi. Til að taka af allan vafa um að umsækjandi um ferðaþjónustuleyfi skuli fyrir hafa almennt rekstrarleyfi leggur nefndin til breytingu á 10. gr. þar sem þetta er áréttað. Þá leggur nefndin til, að tillögu ráðuneytisins, að áréttað verði í 11. gr. að ökumannsvottorð taki eingöngu til farmflutninga. Að auki leggur nefndin til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar til leiðréttingar og skýringar.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu sem þið getið lesið ykkur til yndisauka. (Gripið fram í: Takk fyrir.)